Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ríkiskassinn réttur af með auknum byrðum á láglaunafólk

Stjórnvöld kjósa að ná afkomumarkmiðum með því að færa auknar byrðar á viðkvæma hópa fremur en að ráðast í skynsamlegar aðgerðir í tekjuöflun. Fyrirliggjandi frumvarp til fjárlaga birtir þessa pólitísku forgangsröðun.

Þetta kemur fram í ítarlegri umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015. Umsögnina má finna í samráðsgátt stjórnvalda sem og fyrri umsögn ASÍ um fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029.

Í umsögninni gagnrýnir Alþýðusambandið harðlega þau áform ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra sem birtasti í fjárlagafrumvarpinu og byggja á auknum álögum á láglaunafólk og viðkvæmustu hópa í samfélaginu, eignasölu og svonefndum „afkomubætandi ráðstöfunum“ sem í raun fela í sér niðurskurð.

Í umsögninni segir um þetta: „Alþýðusamband Íslands gagnrýnir harðlega framangreind áform og samráðsleysi stjórnvalda við ákvörðunartökuna. Á það skal bent að stjórnvöld geta farið aðrar leiðir til að bæta afkomu. Í umsögn ASÍ um fjármálaáætlun var kallað eftir skynsamlegum aðgerðum í tekjuöflun og skýrar tillögur settar fram. ASÍ mótmælir því að viðkvæmir hópar séu látnir bera þyngstu byrðarnar af því að rétta af stöðu ríkissjóðs á sama tíma og skattkerfið ívilnar fjármagnstekjum umfram launatekjur og glufur eru til staðar í skattkerfinu sem ýta undir skattasniðgöngu.“

Hvati til skattasniðgöngu

Alþýðusambandið segir að í stað niðurskurðar og skerðinga sem einkum bitni á viðkvæmustu hópum samfélagsins gætu stjórnvöld valið að styrkja tekjuöflun hins opinbera í þeim tilgangi að stuðla að réttlátara skattkerfi. Veikleiki í íslenska skattkerfinu lýsi sér m.a. í hvötum sem ýti undir svonefndan tekjutilflutning sem vísar til þess að launatekjur eru  ranglega skráðar sem fjármagnstekjur. ASÍ telji að slík skattasniðganga kosti hið opinbera um 3-8 milljarða króna á ári. Fleiri hafi bent á þennan veikleika í íslensku skattkerfi. Þannig hafi ábendingar komið fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2012  og í skýrslu sérfræðingahóps sem vann fyrir Fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Rammi um gjaldtöku vegna auðlinda

ASÍ styður aukið umfang auðlindagjalda, og að lögð verði komugjöld á ferðamenn og dregið verði úr skattastyrkjum til ferðaþjónustu. Sambandið hvetur hins vegar til þess að mótaður verði heildarrammi um gjaldtöku auðlinda sem nái yfir nýtingu ólíkra auðlinda hvort sem er fiskveiði, fiskeldi og orkuvinnsla. Auk tekjuauka sé sú nálgun fallin til að skapa mikilvæga sátt um skiptingu þeirrar rentu sem verður til við nýtingu auðlinda og tryggja að hluti hennar verði eftir í nærsamfélaginu.

Skila auðu í húsnæðiskreppunni

Minnt er á að í umsögn um fjármálaáætlun hafi ASÍ hafi varað við því að verðbólga gæti reynst þrálátari vegna aðstæðna á húsnæðismarkaði, þ.e. undirliggjandi verðbólga hjaðnaði en húsnæðisverðbólga yrði ráðandi og ýtti undir verðbólgu. Sú þróun sé að raungerast en nú um stundir.

Stjórnvöld eru gagnrýnd  fyrir „að skila auðu í húsnæðismálum“.

Alþýðusambandið hefur þegar skilað inn sérstökum umsögnum annars vegar um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að draga stórlega úr fjárframlögum til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og hins vegar að ráðast gegn lífeyrisréttindum láglaunafólks með því að lækka og síðan fella niður framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða.

Umsögn um fjárlagafrumvarpið má nálgast hér:

Author

Tengdar fréttir