Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Rólegt verðstríð og rangar verðmerkingar á páskaeggjum

Verð hafa færst lítillega niður á páskaeggjum í hægvinnu verðstríði undanfarnar tvær vikur. Heimkaup lækkuðu verð á páskaeggjum 8. mars og Extra um svipað leiti. Eftir það hafa verð lækkað lítillega í Bónus, en Krónan hefur fylgt skammt á eftir síðustu daga.

Þetta má gaumgæfa betur með því að skoða aðeins þær verslanir og þá daga sem lækkunartakturinn hefur varað. Svipaða mynd mætti draga af verði fleiri páskaeggja.

Þessi hreyfing hefur fært lægsta verðið á mörgum páskaeggjum niður um einhverjar krónur eða fáeina tugi króna, örfáar prósentur, og eru helstu áhrifin að röð verslana þegar kemur að lægsta verði páskaeggja hefur breyst. Nú eru allar verslanirnar sem skoðaðar voru innan 10% frá lægsta verði að meðaltali, að þremur undanskildum.

 

Þrjár verslanir dýrastar, þrjár ódýrastar

Verslanirnar sem skera sig úr eru 10-11 (að jafnaði 40% dýrari en lægsta verð), Iceland (38%) og Krambúðin (37%). Mestur var munurinn á Góu hrauneggi nr. 1, sem var ódýrast í Krónunni (140kr) en dýrast í 10-11 (249kr).

Af 34 eggjum sem skoðuð voru í Bónus var verðið þar lægst á 28 páskaeggjum, eða í 82% tilfella. Af 48 eggjum sem skoðuð voru í Extra var verðið þar lægst á 34, eða í 71% tilfella. Þau egg sem ekki voru ódýrust í Extra voru flest páskaegg nr. 1 af ýmsum sortum, sem kostuðu að meðaltali 30% meira en þar sem þau voru ódýrust. Í Heimkaupum voru 46 egg skoðuð, 32 voru þar á lægsta fáanlega verði eða 70%.

Framboð verslananna á páskaeggjum var misjafnt og má skoða öll verðin í töflu neðar í fréttinni.

Verð lækka í tveimur verslunum

Séu verð úr páskaeggjakönnun verðlagseftirlitsins í fyrra borin saman við þau verð sem fundust í dag sést að tvær verslanir selja páskaegg nú á lægra verði en í fyrra; Heimkaup (7% lækkun) og Hagkaup (0,2% lækkun). Iceland hefur hækkað verð mest, eða um 29% að meðaltali.

Í könnuninni í fyrra voru ekki skoðuð verð í Extra, Krambúðinni og 10-11.

Rangar verðmerkingar í Hagkaup

Könnunin var framkvæmd í Bónus, Fjarðarkaupum, Hagkaup, Kjörbúðinni, Krambúðinni, Extra, Iceland og í vefverslunum Nettó, Krónunnar og Heimkaupa þann 25. mars 2024.

Þess má geta að Hagkaup hefur stundum ólíkar verðmerkingar á sömu vöru í sömu verslun, til dæmis voru Freyju draumaegg nr. 4 merkt bæði á 1979 og 2099 krónur í Hagkaup Skeifunni um helgina. Önnur dæmi í sömu verslun voru Nóa páskaegg nr. 6 (4269kr/4699kr), Freyju lakkrísbombuegg nr. 9 (3299kr/3799kr) og Nóa trompegg nr. 5 (3599kr/3999kr). Telja mætti fleiri dæmi. Tvöfaldar merkingar voru einnig til staðar í Hagkaup Smáralind. Munurinn er í sumum tilfellum verulegur, eða allt að 500kr.

Allar vörur

Hækkanir milli ára

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ. 

 

 

Author

Tengdar fréttir