Fulltrúar tveggja stjórnmálaflokka lýstu sig andvíga auknu samkeppniseftirliti á kosningafundi sem Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og BSRB efndu til í Reykjavík á mánudag.
Á fundinum, sem fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum sátu, var komið víða við. Í umræðu um samkeppnismál voru fulltrúar spurðir hvort þeir væru hlynntir auknu samkeppniseftirliti á Íslandi. Fulltrúarnir höfðu fengið „já“ og „nei“ spjöld til að opinbera skoðanir sínar. Þessari spurningu svöruðu aðeins tveir fulltrúar neitandi; Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, og Sigríður Andersen, fulltrúi Miðflokksins.
Á fundinum, sem þau Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, stýrðu var vísað til svohljóðandi spurningar í nýlegri þjóðmálakönnun Alþýðusambandsins; Finnst þér eftirlit með samkeppni á íslenskum neytendamarkaði vera of lítið, hæfilegt eða mikið?
Tæp 80% svarenda töldu eftirlit með samkeppni heldur eða allt of lítið. Um 6% töldu það heldur eða allt of mikið. Þá afstöðu að hér á landi gangi eftirlit með samkeppni á neytendamarkaði of langt var helst að finna í hæstu tekjuhópum, meðal fólks með háskólapróf og í röðum kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.