Vísitala neysluverðs mælist 0,38% hærri nú í janúar en mánuðinn á undan og sé horft til breytinga frá janúar 2025 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,2%. Hækkun vísitölunnar nú í janúar þýðir aðárstaktur verðbólgu stendur í 4,6%, en það er í nokkru samræmi við nýlega Hagspá ASÍ þar sem spáð var að verðbólga yrði að jafnaði 4% á árinu.
Í verðbólgumælingu janúar mánaðar vega þungt áhrif af einskiptisliðum, þ.e. skattbreytingum hins opinbera en umfang opinberra hækkana í ársverðbólgu hefur aukist síðustu misseri. Undirliggjandi verðbólguþættir hafa þó verið stöðugir, ef frá er talin umfangsmikil hækkun á matvöru í mánuðinum.
Flutningar (0,34%), Matur & óáfengir drykkir (0,15%) og Húsnæði, vatn, rafmagn, gas & aðrir orkugjafar (0,11%) hafa mest áhrif til hækkunar. Útsöluáhrifa gætir í flokkunum Húsbúnaður, heimilistæki & þjónusta (-0,23%) og Fatnaður og skófatnaður (-0,27%), en samanlögð lækkunaráhrif þessara flokka eru 0,5 prósentur.
Verðþróun matvöru er í samræmi við úttekt Verðlagseftirlits ASÍ, frá því fyrr í vikunni, en þar munar mestu um hækkanir innlendra framleiðanda.
Umtalsverðar breytingar voru gerðar á vörugjöldum ökutækja um áramótin, auk þess sem styrkir til rafbílakaupa lækkuðu. Áhrifa þessa gætir í útgjaldaflokknum Kaup á ökutækjum, sem er undirflokkur Flutninga. Mánaðarhækkun ökutækjakaupa mælist 12,26%. Sé leiðrétt fyrir skattaáhrifum er mánaðarhækkunin töluvert lægri, eða 1,41%.
Heildaráhrif innleiðingar kílómetragjalds, og annarra kerfisbreytinga samhliða því, eru til hækkunar skv. janúarmælingum. Líkt og fjallað hefur verið um á vettvangi ASÍ lækkaði verð á bensími og dísil um áramótin fyrir tilstuðlan þessara breytinga. Mæld vísitöluáhrif þess eru um 0,94% til lækkunar. Aftur á móti hefur hækkun veggjalda (kílómetragjalds) 0,99% áhrif til hækkunar. Með hliðsjón af því eru heildar vísitöluáhrifin um 0,05%. Það kemur heim og saman við varnaðarorð Alþýðusambandsins, sem hefur varað við því að dýrara verði að keyra sparneytnari bíla en áður eftir breytingarnar.





