Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Til hamingju Niceair!

Flugvél hins nýja flugfélags Niceair kom til Akureyrar í gær en lagt verður upp í jómfrúarferð félagsins á fimmtudag. Síðustu vikur hafa viðræður verið í gangi á milli hins nýja flugfélags og Flugfreyjufélags Íslands um kjarasamning vegna flugfreyja og flugþjóna og í dag var nýr kjarasamningur undirritaður og samþykktur. Eins og áður hefur verið fjallað um eru ekki algildir kjarasamningar um störf flugfreyja og flugþjóna hér á landi og því þarf að semja við hvert flugfélag fyrir sig. Það er einstaklega ánægjulegt að hið nýja flugfélag leggi metnað í að ganga frá kjarasamningum og verja þannig réttindi og kjör síns starfsfólks. Með því móti er líklegra að hæft og gott starfsfólk fáist til starfa til lengri tíma og haldnar eru í heiðri vinnureglur á íslenskum vinnumarkaði.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir formaður FFÍ segir: Það er með gleði og bjartsýni sem við hjá FFÍ óskum Niceair til hamingju með að hafa tekið á loft. FFÍ fagnar því að Niceair hafi gengið til viðræðna og lokið kjarasamningi við félagið með árangursríkum hætti og bjóðum við nýja félagsmenn hjartanlega velkomna. Viðræðuferlið hefur í alla staði verið farsælt og gott og hlökkum við til áframhaldandi samstarfs.

Drífa Snædal forseti ASÍ segir: Ég vil óska nýju flugfélagi til hamingju með heilladrjúg fyrstu skref og óska þeim velfarnaðar í framtíðinni. Það er ljóst að það á ekki að tjalda til einnar nætur og það er góð tilfinning að geta mælt með nýju flugfélagi við viðskiptavini, fjárfesta og starfsfólk.

Author

Tengdar fréttir