Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Tvær ályktanir samþykktar á þingi ASÍ

Ályktun 44. þings ASÍ um vinnumarkaðsmál
44. þing ASÍ krefst þess að stjórnvöld beiti ríkisfjármálum í þágu almannahagsmuna og tryggi með aðgerðum sínum að kreppan af völdum Covid-19 skerði ekki afkomu- og húsnæðisöryggi almennings. Dregið verði úr atvinnuleysi og komið í veg fyrir langtímaatvinnuleysi. Þing ASÍ krefst þess jafnframt að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar þegar í stað til samræmis við þróun lægstu launa og að þak vegna tekjutengingar lág- og millitekjufólks verði hækkað. Þá verði bótatímabilið lengt úr 30 í 36 mánuði. Samhliða verði tryggt að þau heimili sem lenda í tekjusamdrætti vegna lækkunar tekna eða atvinnuleysis komist í greiðsluskjól og þannig komið í veg fyrir skuldavanda til frambúðar.

Þingið lýsir yfir áhyggjum af stöðu viðkvæmra hópa sem geta farið sérstaklega illa út úr kreppunni. Ungmennum sem eru hvorki starfandi né í námi hefur fjölgað og hætt er við að heimsfaraldurinn muni auka á þá þróun. Erlent launafólk hefur orðið fyrir þungu höggi á vinnumarkaði og er hlutfall þeirra hátt í röðum atvinnuleitenda. Fólk sem starfar í ferðaþjónustu og störfum sem tengjast ferðaþjónustu hefur orðið sérstaklega illa úti og sama á við um starfandi fólk í lista-, menningar- og viðburðageirunum. Ótrygg ráðningasambönd hafa aukið enn frekar á vandann og úrræði stjórnvalda hafa ekki mætt þeim hópum sem hafa þurft að treysta á slík ráðningasambönd. Fjölgað hefur í hópi langtímaatvinnulausra og því brýnt að stórefla þjónustu og atvinnu- og menntunarúrræði til að koma til móts við atvinnuleitendur og þá sérstaklega til að mæta þörfum viðkvæmra hópa. Stjórnvöldum, í nánu samráði við heildarsamtök launafólks, ber að móta atvinnustefnu sem hafi að markmiði, auk þess að vera stefna um fulla atvinnu, sköpun mannsæmandi starfa og hrinda henni í framkvæmd þegar í stað. Hún á að styrkja réttlát umskipti, skjóta styrkum stoðum undir fjölbreytt atvinnulíf til framtíðar og efla grunninnviði landsins. Opinber fjárfesting hefur dregist saman þrátt fyrir gefin fyrirheit stjórnvalda um stórauknar fjárfestingar.

44. þing ASÍ krefst þess að ríkisfjármálum verði beitt af fullum þunga til að milda höggið af kreppunni og því er með öllu hafnað að almenningur eigi að bera kostnaðinn af björgunaraðgerðum stjórnvalda með niðurskurði á opinberri þjónustu og hærri tekjusköttum og gjaldtöku. Þrátt fyrir auknar skuldir er ríkissjóður sterkur, vextir eru í sögulegu lágmarki og gjaldeyrisvaraforði Seðlabanka Íslands aldrei verið meiri. Verkefni hins opinbera er að koma í veg fyrir atvinnuleysi og tryggja að möguleg verðbólga og gengisfall valdi ekki afkomu- og skuldavanda fyrir einstaklinga og heimili. Þar skiptir sköpum að stjórnvöld og Seðlabanki gangi í takt. Atvinnurekendur sem þegar hafa þegið verulega aðstoð úr ríkissjóði og aðra fyrirgreiðslu banka og lánastofnana, þurfa jafnframt að axla sína ábyrgð, virða gerða kjarasamninga, halda atvinnustiginu uppi og koma í veg fyrir óþarfar verðlagshækkanir sem geta kynt undir verðbólgu. Þing ASÍ gerir kröfu til þess að fjármunum úr ríkissjóði verði ráðstafað með gagnsæjum hætti út í samfélagið með það að markmiði að styðja við launafólk og við heimilin í landinu. Stöndum vörð um heimilin!

Þing ASÍ áréttar að ákvarðanir sem teknar eru á krepputímum geta haft úrslitaáhrif til framtíðar. Þær geta sagt til um afkomu- og skuldavanda til ára og jafnvel áratuga; þær geta auka ójöfnuð en þær geta einnig, ef rétt er á haldið, dregið úr ójöfnuði. Verkalýðshreyfingin á skýlausa kröfu til aðkomu að öllum stórum ákvörðunum sem nú eru teknar. Ákvarðanir verður að taka eftir skýrri framtíðarsýn, í samræmi við tillögur ASÍ, undir yfirskriftinni Rétta leiðin: frá kreppu til lífsgæða og öryggis fyrir okkur öll, sem byggja á stefnu ASÍ og kveða á um bráðaaðgerðir, uppbyggingu til framtíðar og eftirfylgni.

Ályktun 44. þings ASÍ um innra starf sambandsins
44. þing ASÍ er haldið við óvenjulegar aðstæður vegna heimsfaraldurs af völdum kórónuveirunnar og stefnumótun frestað til vorsins. Ábyrgð miðstjórnar ASÍ og verkalýðshreyfingarinnar allrar er sérstaklega mikilvæg á slíkum tímum.

Þing ASÍ beinir því til nýrrar miðstjórnar að tryggja að ASÍ rísi undir þessari ábyrgð í hvívetna. Því er sérstaklega beint til miðstjórnar að vinna að eftirfarandi verkefnum og málefnum:

• Að setja á laggirnar nefnd með þátttöku landssambandanna og stærstu aðildarfélaga og í ríku samráði við aðildarfélögin, sem verður falið að móta tillögur ASÍ í tengslum við boðaða vinnu stjórnvalda um Grænbók í lífeyrismálum.
• Að standa fyrir samráði meðal aðildarsamtaka ASÍ um áherslur ASÍ vegna vinnu við Grænbók um umhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála.
• Að hefja vinnu við endurskoðun á skipulagi ASÍ og leggja drög að áætlun um þá vinnu fyrir framhaldsþingið sem haldið verður 11. og 12. maí 2021. M.a. verði horft til laga ASÍ, hlutverks fastanefnda, þjónustu við aðildarsamtökin, slagkrafts í kjarasamningum, fjármögnunar ASÍ og fjölbreytni og styrks hreyfingarinnar.
• Að móta tillögur um fjölmiðlastarfsemi sem miðar að því að styrkja málstað verkalýðshreyfingarinnar.
• Að útfæra leiðir til að efla vinnustaðaeftirlit stéttarfélaganna. Vinnustaðaeftirlitið er alltaf mikilvægt og ekki síst á krepputímum.
• Að fylgja eftir loforðum sem gefin voru í tengslum við Lífskjarasamninginn og hvika í engu frá kröfum ASÍ um nauðsynlegar lagabreytingar til að koma í veg fyrir launaþjófnað og félagsleg undirboð.
• Að halda áfram að tryggja öfluga þjónustu við aðildarfélögin og efla enn frekar þekkingu ASÍ á málefnum vinnumarkaðar, efnahagsmálum og velferðarmálum.

Author

Tengdar fréttir