Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Um siðferðis- og lagalega ábyrgð notenda starfsmannaleiguþjónustu

Alþýðusamband Íslands skorar á alla atvinnurekendur að ráða fólk beint í vinnu milliliðalaust. ASÍ skorar einnig á notendafyrirtæki starfsmannaleiguþjónustu til að láta sig mál þeirra einstaklinga varða sem veita þjónustuna og koma fram við þá með sama hætti og eigin starfsmenn.

Lög segja til um að starfsfólk skuli ekki gjalda þess að vera ráðið hjá starfsmannaleigu en ekki beint til atvinnurekanda. Það er í raun aukin ábyrgð fyrirtækja að nýta starfsfólk í gegnum starfsmannaleigur enda þarf þá að ganga úr skugga um að starfsmannaleigan komi fram við fólkið af mannúð og samkvæmt lögum og kjarasamningum. Ellegar getur kaupendafyrirtækið orðið ábyrgt samkvæmt lögum um keðjuábyrgð. Að gefnu tilefni má jafnframt minna á það að samkvæmt lögum skal tryggja það að notendafyrirtæki upplýsi starfsfólk starfsmannaleiga vel og tímanlega um þau störf sem losna hjá notendafyrirtækinu sem og að starfsmannaleigu er bannað að takmarka starfsfólki sínu að stofna til ráðningarsambands við þau fyrirtæki sem nýtt hafa þjónustu viðkomandi. Alþýðusambandið hvetur aðildarfélög sín til dáða í að tryggja réttindi félagsmanna sinna hvort sem fólk er ráðið beint til fyrirtækis eða í gegnum starfsmannaleigu. Að fjarlægja ráðningarsamband við starfsfólk dregur hvorki úr lagalegri né siðferðislegri skyldu atvinnurekenda.

Á undanförnum misserum hefur starfsemi starfsmannaleiga rutt sér til rúms á íslenskum vinnumarkaði. Slík starfsemi er frávik frá þeirri meginreglu sem almennt gildir að vinnuréttarsamband atvinnurekenda og launafólks sé milliliðalaust. Í lögum, nánar tiltekið lögum nr. 139/2005 með síðari breytingum sbr. tilskipun ESB 2008/104 um starfsmannaleigur er lögmæti starfseminnar staðfest en að sama skapi lagðar á aðila sem starfsemina reka, sem og notendafyrirtæki, miklar skyldur sem alla jafna eiga ekki við um hefðbundinn atvinnurekstur. Allar þessar reglur eiga það sammerkt að vera ætlað að tryggja jafnræði á milli starfsmannaleigustarfsmanna og annarra starfsmanna sem og að vernda starfsmannaleigustarfsmenn sem er í flestum tilvikum ófaglært fólk að erlendu bergi brotið en tölfræði sýnir að launafólk í slíkri aðstöðu verði frekar fyrir launaþjófnaði og réttindabrotum en aðrir. Svokölluð keðjuábyrgð sem komið hefur verið á fót með ofangreindum reglum er ætlað að tryggja að notendafyrirtæki komist ekki undan ábyrgð á málum starfsmannaleiga og starfsfólks þess með meðvituðu afskiptaleysi á þeirra aðstæðum.

Author

Tengdar fréttir