Um Vinnuna

Vinnan er tímarit Alþýðusambands Íslands, sem komið hefur út með mis-reglubundnum hætti frá árinu 1943. Upphaf Vinnunnar má rekja til þess að skipulagi ASÍ var breytt árið 1940, þannig að það var aðskilið frá Alþýðuflokknum og hafði þá ekki lengur umráð með neinu sérstöku málgangi.

Úr varð stofnun Vinnunnar sem var frá upphafi hugsað sem málgagn verkalýðsfélaganna og sameiginlegur umræðuvettvangur.

Í tímans rás hefur svo útgáfu Vinnunar verið misjafnt háttað, allt frá því að vera reglubundið mánaðarrit og yfir í það að vera sérstök útgáfa í kringum hátíðleg tækifæri, s.s. 1. maí eða jól og áramót.

Árið 2016 var tekin ákvörðun um að færa Vinnuna yfir í stafrænt form og hætti þar með pappírsútgáfa Vinnunnar. Fyrst var sú stafræna útgáfa þó með þeim hætti að efnið var uppfært árlega í kringum 1. maí og lítið þess á milli. Frá og með árinu 2024 hefur Vinnan orðið að lifandi fréttamiðli, þar sem hægt er að nálgast allar helstu fréttir sem varða Alþýðusamband Íslands og íslenska verkalýðshreyfingu og vinnumarkað í víðari skilningi.

Það er von okkar og vilji að Vinnan haldi áfram að dafna og stækka sem útgáfa og vettvangur fyrir umræðu um málefni íslenskrar verkalýðshreyfingar.

Vinnunni fylgt úr hlaði í 1. tölublaði árið 1943.