Umtalsverð lækkun verðbólgu frá gerð kjarasamninga 

Höfundur

Ritstjórn

Verðbólga mældist 3,8% í mars en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,37% frá fyrri mánuði. Ársverðbólgan er því komin undir efri vikmörk Seðlabankans í fyrsta sinn frá desember 2020. Sé horft framhjá áhrifum húsnæðiskostnaðar mælist verðbólga 2,5% eða við markmið Seðlabankans.  

Verð á mat- og drykkjarvöru hækkaði um 0,7% milli mánaða (0,1 vísitöluáhrif), reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,45% (0,09 vísitöluáhrif), föt og skór hækkuðu um 2,38% (0,09 vísitöluáhrif).  

Verðbólga niður um þrjú prósentustig

Um ár er frá því kjarasamningar voru undirritaðir á almennum vinnumarkaði en á þeim tíma mældist 6,8% verðbólga og þar af 4,8% ef horft er framhjá áhrifum húsnæðiskostnaðar. Verðbólga hefur því hjaðnað um 3 prósentustig á einu ári í samræmi við markmið samninganna.  

Sé verðbólga skoðuð eftir eðli og uppruna má sjá nokkurn breytileika í verðhækkunum. Mest árshækkun mælist í raforkuverði, sem hefur hækkað um 15,9% milli ára en einnig mælast umtalsverðar hækkanir á grænmeti, t.d. kartöflum sem hafa hækkað um 13% milli ára. Verð á tryggingum hefur hækkað um 8,7% milli ára en hægt hefur á hækkunum á húsnæðiskostnaði sem hækkað hefur um 8%. Dregið hefur úr innfluttum verðhækkunum, eldsneytisverð stendur að mestu í stað ásamt verði á nýjum bílum og öðrum innfluttum vörum.  

Hækkun matvöru í samræmi við mælingu Verðlagseftirlits 

Líkt og fyrr segir hækkaði verð á mat- og drykkjarvöru um 0,7% milli febrúar og mars. Skýrðist hækkunin m.a. af hækkun á kjötvöru, ostum og fiski. Þróunin er í samræmi við mælingu Verðlagseftirlits ASÍ en samkvæmt dagvöruvísitölu ASÍ hefur vörukarfan hækkað að meðaltali um 0,64% milli mánaða.  

Þær verslanir sem vega þyngst í matvöruhækkun mánaðarins eru Bónus, sem hefur hækkað einna mest undanfarið ár; Nettó, sem var með útsöludaga í byrjun febrúar og hækkar því nokkuð nú; og Kjörbúðin, en hækkar um 3,4% milli mánaða og er hástökkvari mánaðarins. 

Uppsöfnuð árshækkun matvöruverðs mælist minnst í Nettó (0,97%), Heimkaupum (1,6%) og Krónunni (2,2%), en segja má að þessar verslanir hafi haldið sig innan verðbólgumarkmiðs. Árshækkun Iceland (16,1%) ber hins vegar höfuð og herðar yfir aðrar verslanir. Krambúðin (4,9%) fylgdi þróun Iceland eftir framan af, en Iceland sker sig frá hjörðinni í síðustu febrúarmælingu. Í kjölfar mars mælingar eftirlitsins færist Bónus (5,5%) upp í annað sæti yfir uppsafnaðar árshækkanir, en hafði setið í þriðja sæti frá því í október 2024. 

Kapp færist í samkeppni – hjá sumum 

Grön Balance vörur í Krónunni lækka um 2,8% milli mánaða, en þær hafa lækkað um 7% frá undirritun kjarasamninga fyrir ári síðan þegar verð í marsmánuði er borið saman við verð í mars 2024. Euroshopper vörur í Bónus hækka um 0,3% milli mánaða en hafa hækkað um 3,5% frá undirritun kjarasamninga. Coop vörur í Nettó hækka um 0,2% milli mánaða en hafa hækkað um 6,9% frá undirritun kjarasamninga. Þetta er lýsandi fyrir þróun verðlags í verslununum þremur undanfarið ár: 

  • Nettó hefur lækkað verð á samkeppnisvörum undanfarið ár. Verðlag á vörum sem finna má í Krónunni eða Bónus hefur lækkað í Nettó um 1,7% undanfarið ár. Verðlag annarra vara hefur hækkað um 2,8%, sem er minni hækkun en í Bónus. 
  • Yfir 90% af vörum sem finnast í bæði Bónus og Krónunni eru enn með einnar-krónu verðmun. Ekki hafa orðið breytingar á þessari þróun þrátt fyrir að Prís hafi opnað í ágúst síðastliðnum á mun lægri verðpunkti en Bónus og haldist þar frá opnun. 
  • Þrátt fyrir algengan krónumun á vörum í Bónus og Krónunni hefur verðlag hækkað um 4,8% í Bónus á einu ári en um aðeins 2,7% í Krónunni. Skýringin er sú að í Krónunni hefur verðlag hækkað meira á vörum sem eru líka seldar í Bónus (3,8%) en á öðrum vörum (2,1%). 

Prís opnaði um miðjan ágúst 2024 og hefur komið vel út í verðsamanburði, á vettvangi Verðlagseftirlitsins, við aðrar lágvöruverslanir. Á sama tíma eru uppsafnaðar verðhækkanir í Prís (2,3%) þær næst hæstu meðal lágvöruverslanna. Á meðan hafa þeir vöruflokkar, sem lágvöruverslanirnar fjórar bjóða allar upp á, lækkað um 0,1% í Nettó. Stig verðlags er eftir sem áður lægt í Prís.  

Í stuttu máli; Nettó og Prís hafa aukið þrýstinginn á Bónus og Krónuna undanfarið ár með því að lækka verð á samanburðarhæfum vörum eða bjóða þær hreint og beint á lægra verði, en sá þrýstingur virðist enn ekki fá mikið á risana tvo. 

Útlit fyrir hægari lækkun verðbólgu og óvissa aukist 

Áfram má búast við hjöðnun verðbólgu fram á sumar. Þó er útlit fyrir að hægja muni á lækkunartaktinum á næstu mánuðum og ekki ólíklegt að verðbólga verði í kringum 3,3-3,5% í lok árs. Verðbólguhorfur á næstu misserum ráðast ekki síst af ytri skilyrðum og þróun á húsnæðismarkaði. Aukin óvissa í alþjóðaviðskiptum hefur þannig áhrif á verðbólguhorfur og erfitt að áætla hvernig og hve umfangsmikil áhrif verði af viðskiptastríðum fyrir Ísland. Frá gerð kjarasamninga hafa ytri skilyrði verið nokkuð hagfelld, hægt hefur á hækkunum hrávöruverðs ef frá eru taldir einstaka liðir, t.d. verð á kakói og kaffi. Þetta endurspeglast í minni innfluttri verðbólgu en þó mælast töluverðar hækkanir á súkkulaði og kaffi.  

Tengdar fréttir

  • Kauptaxtaauki tekur gildi 1. apríl

    Forsendunefnd kjarasamninga hefur úrskurðað að kauptaxtaauki virkjast frá og með…

    Ritstjórn

    21. mar 2025

  • Melabúðin segir pass við verðlagseftirliti

    FRÉTTIN HEFUR VERIÐ UPPFÆRÐ Melabúðin hefur hafnað þátttöku í verðlagseftirliti…

    Benjamin Julian

    17. mar 2025

    Melabúðin
  • Matvöruverð tekur stökk

    Verð á dagvöru fer hækkandi og hefur dagvöruvísitala verðlagseftirlitsins hækkað…

    Ritstjórn

    12. feb 2025