Námskeið um stéttarfélagsbrot – eða „Union busting“
Fimmtudaginn 1. des. bauð Félagsmálaskóli alþýðu upp á námskeiðið „Union busting“ – eða brot gegn stéttarfélögum. Námskeiðið var vel sótt, bæði í stað- og fjarkennslu. Góður andi var í hópnum og var ýmislegt reifað um málefnið bæði fyrir og eftir námskeiðið.
„Union busting“ eða stéttarfélagsbrot er hugtak sem notað er yfir margvíslegar aðgerðir atvinnurekenda, stjórnvalda eða annarra hagsmunaaðila til að trufla starfsemi eða koma í veg fyrir stofnun stéttarfélaga – eða tilraunir til að fjölga félagsmönnum á vinnustöðum. Með því er verið að reyna að draga úr samtakamætti launafólks og/eða vega að starfsemi stéttarfélaga.
Á Íslandi hefur lengst af ríkt jafnvægi milli stéttarfélaga og atvinnurekenda og gagnkvæm virðing. En er það hugsanlega að breytast – með aukinni hnattvæðingu, flæði fólks milli landa og fleiri launamönnum af erlendum uppruna. Réttur til að stofna stéttarfélög er tryggður í stjórnarskrá Íslands og lögum og vinnuréttarlöggjöf sterk hér á landi.
Leiðbeinandi var Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ. Fjallaði hann m.a. um sögu „Union busting“, og hvers vegna það sé vilji og hagsmunir atvinnurekenda og jafnvel stjórnvalda að brjóta niður stéttarfélög og samtakamátt innan þeirra. Halldór fór einnig yfir helstu birtingamyndir slíks niðurbrots, þ.e. hvaða aðferðum þessir aðilar beita og hvernig stéttarfélög geta brugðist við.
Farið var yfir þekktar aðferðir við niðurbrot stéttarfélaga á námskeiðinu.
Námskeið til undirbúnings fyrir hæfismat FME
Dagana 30. nóv. – 2. des og 13. des. bauð Félagsmálaskóli alþýðu upp á námskeiðið „Undirbúningur fyrir hæfismat Fjármálaeftirlitsins“. Námskeiðið er hugsað sem undirbúningur fyrir þá sem eru að taka sæti í stjórnum lífeyrissjóða og þurfa að standast hæfismat Fjármálaeftirlitsins. Fjallað er um ýmsa þætti í starfsemi lífeyrissjóðanna s.s. hlutverk og helstu verkefni stjórnarmanna og starfsemi lífeyrissjóða; Sjálfstæði, dómgreind og viðhorf stjórnarmanna; Reikningsskil og endurskoðun lífeyrissjóða, fjárfestingarstefnu og áhættumat .
Námskeiðið er þrír og hálfur dagur (33 klst) og að kennslu koma bæði lögfræðingar og endurskoðendur með ríka þekkingu á málaflokknum.
Félagsmálaskólinn býður upp á þetta námskeiði einu sinni til tvisvar á ári. Námskeiðið er alltaf í boði að vori að loknum ársfundum lífeyrissjóðanna auk þess sem skólinn getur brugðist við óskum eða ákalli lífeyrissjóðanna eftir námskeiðinu.
Undirbúningsnámskeið fyrir hæfismat FME tekur á öllum helstu þáttum sem varða setu í stjórn lífeyrissjóða.