Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Verðbólga í október mældist 4,5% – 3% án húsnæðis

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,59% í október og var 511,2 stig samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtust í síðustu viku og voru til umfjöllunar í mánaðaryfirliti stefnumótunar og greiningar. Verðbólga jókst milli mánaða og hækkaði úr 4,4% í 4,5%. Verðbólga jókst einnig sé litið framhjá áhrifum húsnæðiskostnaðar og mælist hún nú 3,0%.

Húsnæðiskostnaður heldur áfram að kynda undir verðbólgu
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 1,4% (0,23% áhrif á vísitölu) milli mánaða en verðbólga skýrist að stærstu leyti af auknum húsnæðiskostnaði um þessar mundir þar sem árshækkun húsnæðiskostnaðar mælist 9,6%.
Aðrir liðir hafa þó einnig sveiflast undanfarið og þar hefur verð á olíu hækkað verulega síðustu misseri. Að hluta eru þar að ganga til baka miklar lækkanir sem fram komu eftir heimsfaraldurinn. Hækkun olíuverðs hefur skilað sér í verði á eldsneyti í smásölu og mældist verðhækkunin 4,2% milli mánaða (0,13% vísitöluáhrif). Alls hefur eldsneytisverð hækkað um 20,4% milli ára.

Hrávara, sveiflukenndir liðir og húsnæði vega þungt
Oft er litið til þess að undanskilja sveiflukennda liði og þá liði sem peningastefnan hefur litla stjórn yfir til að átta sig á undirliggjandi verðbólguþrýstingi. Til viðbótar við vísitölu neysluverðs birtir Hagstofan einnig svokallaðar kjarnavísitölur. Kjarnavísitala 1 (K1) er þannig vísitala neysluverðs án áhrifa búvöru, grænmetis og bensínverðs. Verðbólga á þann mælikvarða mælist í dag 4,3%. Kjarnavísitala 2 (K2) undanskilur til viðbótar áhrif opinberrar þjónustu og kjarnavísitala 3 (K3) horfir til viðbótar framhjá áhrifum vaxtabreytinga á húsnæðislið. Að lokum horfir K4 framhjá reiknaðri húsaleigu í heild sinni.

Kjarnaverðbólga samkvæmt K4 mælist í dag 2,6% eða í kringum markmið Seðlabankans. Þetta sýnir að verðbólga skýrist í dag að mestu af þróun á húsnæðismarkaði, hrávöruverði og breytinga á sveiflukenndum liðum.

Dregið úr hækkunum á matvöru

Á síðasta ári hækkaði matvöruverð allnokkuð samhliða hækkun á innfluttu verðlagi. Veiking á gengi krónunnar í kjölfar heimsfaraldurs ýtti þannig undir verulega hækkun verðlags á síðasta ári. Dregið hefur úr þessum áhrifum og í október mældist árshækkun dagvöru einungis 1,1% í október og hafa innfluttar mat- og í verði á ársgrundvelli um 2,2%.

Verðbólga aukist á vesturlöndum

Þrálát verðbólga er þó ekki einungis áskorun á Íslandi. Undanfarin misseri hefur verðbólga aukist hratt í Bandaríkjunum og Evrópu og mælist hún víða hærri en hér á landi. Í Bandaríkjunum mælist verðbólga 6,3% á mælikvarða samræmdrar vísitölu neysluverðs og 3,4% á Evrusvæðinu. Verðlag hefur hækkað í flestum ríkjum Evrópu og þar af hratt í stórum hagkerfum á borð við Þýskaland og Spán þar sem verðbólgan mælist nú 4% en í byrjun árs var verðbólgan 1,6% í Þýskalandi og 0,4% á Spáni.

Verðbólguþrýstinginn má fyrst og fremst rekja til verulegrar hækkunar á orkuverði í Evrópu. Skýringin á hækkun orkuverðs liggur í framboðstregðu á sama tíma og heildareftirspurn hefur aukist hratt og hagkerfi tekið við sér í kjölfar heimsfaraldurs. Evrópskur orkumarkaður er verulega háður gasi til að draga úr sveiflum í raforkuverði en framboð á gasi hefur ekki aukist í takt við aukna eftirspurn og er birgðastaða takmörkuð.

Sveiflur á raforkuverði hefur ratað hratt í verðbólgumælingar á Evrusvæðinu en á ársgrundvelli hefur orkuverðið hækkað um 17,4%. Sé litið framhjá þróun orkuverðs mælist verðbólgan þó stöðug eða í kringum 1,7%. Sveiflur í verði á gasi og olíu hafa önnur áhrif á heimili í Evrópu en á Ísland. Áhrifin koma þannig þyngra fram í hækkun húsnæðiskostnaðar, í gegnum dýrari orku til heimilanna, t.d. rafmagn og gas til upphitunar.

Hvaða áhrif mun hrávöruverð hafa?

Til viðbótar við hærra orkuverð er útlit fyrir að hækkun hrávöruverðs muni hafa áhrif á framleiðsluverð og verð á matvöru á næstu misserum. Ástæðan eru m.a. flutningstakmarkanir og framboðstregða nú þegar eftirspurn fer hratt vaxandi í kjölfar heimsfaraldurs. Hækkun á hrávöruverði hefur verið veruleg undanfarið en til viðbótar við hærra orkuverð hefur verð á iðnvöru (þ.e. málmar, hrávara, landbúnaðarvara) hækkað um 23% á ársgrundvelli. Landbúnaðarvörur (timbur, bómull, ull, gúmmí) hafa hækkað um 12% og matvara um 29%. Til viðbótar hefur verð á áburði hækkað hratt síðustu mánuði og verð nær tvöfaldast á síðustu 12 mánuðum þar af þriðjungs hækkun frá því í maí. Merki eru um að hægt hafi á hækkunum hrávöru en þó má vænta þess að áhrifin hægi á hjöðnun verðbólgu á næstu misserum, m.a. í gegnum innflutt verðlag og dýrari aðföng.

Author

Tengdar fréttir