Vorskýrsla Kjaratölfræðinefndar verður kynnt í húsakynnum ríkissáttasemjara föstudaginn 13. júní kl. 9.00. Í skýrslunni er umfjöllun um launaþróun á almennum og opinberum vinnumarkaði og kjarasamninga sem gerðir hafa verið í yfirstandandi kjarasamningslotu. Einnig er í skýrslunni að finna umfjöllun um launastig, samsetningu launa og launadreifingu árið 2024 auk umfjöllunar um íslenskan vinnumarkað, þróun efnahagsmála og kaupmáttarþróun.
Kjaratölfræðinefnd er samstarfsnefnd ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka á vinnumarkaði um gerð og hagnýtingu talnaefnis um laun og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, forsætisráðuneyti, félags- og vinnumálamálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Hagstofu Íslands.
Sýnt verður frá kynningunni í streymi á vef Kjaratölfræðinefndar og hefst útsending kl.9.00.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA munu ávarpa fundinn auk þess sem Hrafnhildur Arnkelsdóttir formaður KTN og Arnaldur Sölvi Kristjánsson sérfræðingur nefndarinnar fara yfir helstu niðurstöður skýrslunnar.