Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

VR 130 ára – ASÍ gefur listaverk

Þann 27. janúar árið 1891 var Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, VR, stofnað á fundi í veitingahúsinu Hermes við Lækjargötu og fagnar því félagið 130 ára afmæli. Á þessum merku tímamótum bauð VR upp á glæsilega hátíðardagskrá þar sem m.a. forseti ASÍ, Drífa Snædal, færði félaginu listaverk að gjöf.

Verkið er eftir Bjarka Bragason og heitir þrjúþúsund og níu ár (2009). Það fjallar um tilraun til þess að skilja hnattrænar breytingar í umhverfinu í gegn um skoðun á hversdagslegu umhverfi líkt og húsagarði. Undanfarin 12 ár hefur Bjarki fylgst með húsagarði ömmu sinnar og afa falla í órækt eftir að þau voru bæði fallin frá, og garður sem eitt sinn var skipulagður og blómlegur hefur orðið að villtu umhverfi. Garðurinn stendur á Kársnesi í Kópavogi og er einn af fyrstu stöðunum sem byggðust upp í Kópavogi um miðja 20. öldina, þegar alþýðufjölskyldur líkt og forfeður listamannsins gerðust frumbyggjar á svæðinu og hófu að rækta upp garða á annars beru holti.

Bjarki hefur í verkum sínum notað garðinn sem nokkurs konar spegil, sem hann ber upp að spurningar á borð við hvernig skiljum við breytingar á loftslagi og gróðurfari í heiminum? Hann leitast við að fylgjast með kunnuglegu umhverfi breytast og bera það saman við stærri viðfangsefni sem eru torskildari, líkt og hlýnun jarðar, en þó alltumlykjandi. Í verkinu birtast plöntur sem Bjarki safnaði í garðinum árið 2009, en þá tók hann sýni af öllum plöntum sem uxu í garðinum þar sem fyrir lá að húsið og garðurinn yrðu rifin til að auka mætti byggingarmagn á svæðinu. 2018 tók hann sambærilegt safn sýna og bar saman við hið fyrra og þá mátti sjá þær breytingar sem eiga sér stað þegar stjórn mannsins á umhverfinu sleppir.

Author

Tengdar fréttir