Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

2,8% verðbólga í október

Vísitala neysluverðs var 472,2 stig í október mánuði og hækkaði um 0,36% milli mánaða samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar.  Verðbólga  mælist því 2,8% á ársgrundvelli og hefur ekki mælst lægri á árinu. Ef horft er á vísitölu neysluverðs án húsnæðis, nam hækkunin 0,22% milli mánaða og verðbólga án húsnæðis því 2,6%.

Verðbólga fór vaxandi á síðasta ári og mældist hæst 3,7% í desember. Þá hafði óvissa um verðlagshorfur aukist samhliða veikingu gengis krónunnar og erfiðari kjaraviðræðum. Verðbólga hefur hinsvegar hjaðnað á þessu ári, mældist 3,3% að meðaltali á fyrri hluta árs og 3,1% á þriðja ársfjórðungi.

Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hafði mest áhrif á vísitölu neysluverðs í mánuðinum en sá liður hækkar um 1,0% (áhrif á vísitöluna 0,17%). Séu undirliðir vísitölunnar skoðaðir má sjá betur hvernig verðlagsþróun hefur verið. Undanfarið hefur breytileiki verið lítill, ef frá er talin verðlækkun á grænmeti og eldsneyti. Dagvara hefur hækkað um 2,6% milli ára, innlend matar og drykkjarvara um 2,5% á meðan aðrar innlendar vörur hafa hækkað um 5,1%. Jafnframt hefur húsnæðisliður nú minni áhrif á verðbólgu undanfarin ár.

Í nýlegri hagspá ASÍ var farið yfir hvernig verðbólguhorfur hafi batnað undanfarin misseri og forsendur eru fyrir að verðbólga hjaðni á næstu misserum, m.a. vegna kjarasamninga sem samræmast  verðstöðugleika. Spá hagdeildar gerir ráð fyrir að gengi verði stöðugt á spátímanum en um það ríkir líkt og áður óvissa. Raungerist spá hagdeildar yrði verðbólga 3% á þessu ári og áfram myndi draga úr verðbólgu á næstu árum, hún yrði 2,8% á næsta ári og 2,7% árið 2021.

Author

Tengdar fréttir