Hagstofan hefur gefið út þjóðhagsreikninga fyrir þriðja ársfjórðung 2024. Áætlað er að samdráttur hafi verið á ársfjórðungnum, sem nemur 0,5% frá sama tíma í fyrra. Tölurnar eru merki um að áfram dragi úr umsvifum í hagkerfinu en samdráttur uppá 2,8% mældist á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og hagvöxtur nam 0,2% á öðrum. Sé horft á fyrstu níu mánuði ársins mælist samdráttur um 1% milli ára.
Einkaneysla dregst saman
Á þriðja ársfjórðungi jókst einkaneysla lítillega, eða um 0,8% að raunvirði. Það sem af er ári hefur einkaneysla aukist um 0,2% að raunvirði frá fyrra ári, en samdráttur var í einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Einkaneysla endurspeglar heildar útgjöld vegna neyslu heimila, hluti af breytingu skýrist þannig af fólksfjölgun. Hagstofan áætlar að fólksfjölgun hafi numið um 1,6% milli ára á þriðja ársfjórðungi. Mest varð aukning í neyslu Íslendinga erlendis á ársfjórðungnum, um 3%, en áfram er samdráttur er í neyslu varanlegra neysluvara, líkt og kaupum á bifreiðum.
Samhliða nýjum tölum um þriðja ársfjórðung voru tölur um einkaneyslu ársins 2023 endurskoðaðar. Ljóst er að einkaneysla í varanlegum neysluvörum hefur dregist saman nú í á annað ár, en samdráttur var í kaupum á bifreiðum, húsgögnum og heimilisbúnaði og raftækjum á árinu 2023. Þessi þróun er svo viðvarandi það sem af er ársins 2024. Samdráttur var einnig í neyslu Íslendinga erlendis á síðasta ári en útgjöldin drógust saman um tæp 2% árið 2023 en hækka nú á þriðja ársfjórðungi eftir samdrátt á öðrum ársfjórðungi.
Íbúðafjárfesting eykst
Áætlað er að fjárfesting hafi aukist lítillega, um 2,3% á þriðja ársfjórðungi og 3,8% það sem af er ári. Íbúðafjárfesting eykst mest á ársfjórðungnum, um 10,7% en viðvarandi samdráttur var í íbúðafjárfestingu frá 2021 til loka árs 2023. Áætlanir gefa til kynna að atvinnuvegafjárfesting dragist lítillega saman og fjármunamyndun atvinnuvega án skipa, flugvéla, stóriðju og tengdra greina dregst saman um 2,4%.
Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu nam íbúðafjárfesting 5% á þriðja ársfjórðungi. Hlutfallið hækkaði frá fyrri ársfjórðungi en fór lækkandi á árunum 2020-2021. Þó tölurnar bendi til íbúðafjölgunar þarf svo ekki að vera, en mat HMS er að fullgerðum íbúðum fækki milli ára og verði um 3000 á þessu ári borið saman við 3400 íbúðir á síðasta ári.
Þjónustujöfnuður jákvæður en framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar neikvætt
Stærsta neikvæða framlag til hagvaxtar þennan ársfjórðunginn kemur frá utanríkisviðskiptum, en áætlanir gefa til kynna að þau hafi skilað neikvæðu framlagi sem nemur 1,8% en framlag utanríkisviðskipta hefur verið neikvætt það sem af er ári. Þjónustujöfnuður mældist jákvæður á ársfjórðungnum en afgangur minni en á sama ársfjórðungi í fyrra, og hefur því neikvæð áhrif á hagvöxt. Halli mældist á vöruviðskiptum en minni en á sama tíma í fyrra.