Ríkisstjórnin bregðist við ákalli þjóðarinnar vegna Palestínu

Höfundur

Ritstjórn

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 17. september 2025:

Alþýðusamband Íslands kom að skipulagi fjöldafunda undir yfirskriftinni Þjóð gegn þjóðarmorði sem fóru fram 6. september sl. Sjö fundir voru haldnir samtímis í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum, Húsavík, Stykkishólmi og Hólmavík. Áætlað er að um 10.000 manns hafi sótt fundina, sem boðað var til vegna skipulagðra óhæfuverka ísraelskra stjórnvalda gegn Palestínumönnum, sem hafa verið lögð að jöfnu við þjóðarmorð. Þjóðarmorðið hefur nú staðið yfir í 23 mánuði og staðfest er að 20.000 börn hafa verið drepin. Nánast allir innviðir á Gasaeru í rúst og hernaður Ísraela þyngist með hverjum deginum. Þar ríkir manngerð hungursneyð og nær enga læknisþjónustu er að fá.


Skilaboð Þjóðar gegn þjóðarmorði voru skýr. Fundurinn krafðist aðgerða af hálfu íslenskra
stjórnvalda, eða eins og einn ræðumanna komst að orði í ræðu sinni á Austurvelli: Í dag heimtar
þjóðin alvöru aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ekki fleiri orð sem lýsa áhyggjum, hneykslun
eða uppgjöf. Við krefjumst aðgerða sem bíta og láta þá seku sæta ábyrgð.


Ýmsar tillögur að aðgerðum komu fram í máli ræðumanna. Ríkisstjórnin gæti komið á almennu
viðskiptabanni við Ísrael, sagt upp þátttöku Íslands í fríverslunarsamningi EFTA við Ísrael og
komið vopnaflutninga- og vopnasölubanni gagnavart Ísrael, svo eitthvað sé nefnt.


Ríkisstjórnin brást hratt við og tilkynnti strax næsta dag aðgerðir sínar. Miðstjórn ASÍ lýsir yfir
miklum vonbrigðum með bitlausar og veikburða aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem eru í engu
samræmi við ákall fjöldafundanna og breiðfylkingarinnar sem stóð þar að baki. Enn síður eru þær
í samræmi við alvarleika hinna grimmilegu glæpa sem ríkisstjórn Ísraels hefur framið gegn
palestínsku þjóðinni, glæpa sem fela í sér skýr og alvarleg brot gegn alþjóðalögum og stigmagnast
dag frá degi.


Boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem fela í sér óútfærðar tillögur um merkingu vara frá
landránsbyggðum Ísraela í Palestínu, töf á þátttöku Íslands í uppfærslu á fríverslunarsamningi
EFTA við Ísrael, mögulega uppfærða greinargerð frá Íslandi í máli Suður-Afríku gegn Ísrael hjá
Alþjóðadómstólnum og ferðatakmarkanir gagnvart tveimur ráðherrum Ísraelsstjórnar, bera með
sér að ríkisstjórnin annað hvort skilji ekki eða vilji ekki viðurkenna ábyrgð sína samkvæmt
þjóðarrétti um að gera allt sem í hennar valdi stendur til að stöðva yfirstandandi þjóðarmorð.


ASÍ hvetur stjórnvöld til að svara ákalli Þjóðar gegn þjóðarmorði um aðgerðir í samræmi við alvarleika málsins.

Tengdar fréttir

  • Ríkisstjórnin endurskoði áform um jöfnunarframlag vegna örorku

    Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum…

    Ritstjórn

    18. sep 2025

  • Ríkisstjórn Kristrúnar láti aðra en atvinnulausa fjármagna sparnaðinn

    Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum…

    Ritstjórn

    17. sep 2025

  • Ótækt að útgerð beiti starfsfólki sem pólitísku vopni

    Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum…

    Ritstjórn

    17. sep 2025