Verkalýðsfélag Snæfellinga, Kjölur og Sameyki stóðu saman að samkomum dagsins á Snæfellsnesi.
Vel var mætt á baráttufundi á svæðinu sem voru haldnir á Fosshóteli í Stykkishólmi, samkomuhúsinu í Grundarfirði og félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík.
Saga Kjartansdóttir verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits ASÍ flutti barátturæðu dagsins.
Góðu félagar.
Yfirskrift 1. maí í ár er „Sterk hreyfing – sterkt samfélag“.
Sterk verkalýðshreyfing hefur fært okkur miklar kjarabætur og aukin réttindi í gegnum tíðina. Hún skilaði okkur meðal annars almannatryggingum sem tryggja framfærslu í veikindum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum, fæðingarorlofi, bættum launum, styttri vinnutíma, sumarfríi og svo mætti áfram telja. Þessi réttindi komu ekki af sjálfu sér og kostuðu blóð, svita og tár.
Þrátt fyrir augljósan árangur af baráttu launafólks og almennt betri lífskjörum er baráttunni hvergi lokið. Baráttan snýr nefnilega ekki síður að því að verja áunnin réttindi. Þá baráttu þarf stöðugt að heyja því það er sífellt reynt að höggva í réttindin.
Vistarbandið
Þegar vistarbandið svonefnda var í gildi, allt fram til loka 19. aldar voru um fjórðungur landsmanna í raun ófrjáls. Allt það fólk sem átti ekki jörð réð sig til eins árs í senn og var upp á hinn sjálfstæða bónda komið með fæði, klæði og húsnæði. Það lagði sjaldnast fram kvörtun, jafnvel þótt það fengi illa meðferð, enda hafði bóndinn svokallað „hirtingarvald“ yfir þeim.
Það er sam-mannlegt að óska sér og fjölskyldu sinni betra lífs og róa að því öllum árum. Þá sögu þekkjum við vel úr okkar samfélagi. Snemma á 20. öld streymdu fátæk vinnuhjú í sjávarplássin í leit að betri tækifærum og með ósk um að búa sér og sínum góða framtíð. Í Reykjavík tók gjarnan á móti þeim lausavinna við höfnina, við að ferma og afferma skip og fólk var ráðið frá degi til dags – ekkert atvinnuöryggi. Sum þeirra bjuggu í óheilnæmu húsnæði, bröggum og gluggalausum kjöllurum, því það var ekki búið að byggja nóg, það var húsnæðiskreppa.
En óskin um betra líf knúði fólk áfram í að sameinast í skipulögðum samtökum. Launafólk vann sigra með því að bindast böndum. Til þess þurfti samtakamátt, dug og þor. Fólk sameinaðist um sameiginlega hagsmuni og sameiginlega hugsjón.
Einhver stærsta breyting sem orðið hefur á íslensku samfélagi er mikill aðflutningur fólks frá öðrum löndum síðustu ár og áratugi. Þessar breytingar eru fyrst og fremst drifnar áfram af þörf atvinnulífsins fyrir vinnandi hendur og líka vegna þess að fólk leggur land undir fót í leit að tækifærum og stefnir þangað sem það getur fengið störf og búið sér og sínum gott líf. Rétt eins og formæður og forfeður okkar gerðu fyrir um hundrað árum síðan þegar þau fluttu á mölina.
Fjórðungur á vinnumarkaði
Í dag er næstum fjórðungur launafólks á Íslandi fæddur í öðru landi en á Íslandi. Sum þeirra eru fædd í Víetnam. Meðalmánaðarlaun í Víetnam eru 40.000 krónur og einungis þau sem eiga miklar eignir geta framfleytt sér og sínum svo vel sé. Það er ekki skrýtið að fólk, andspænis loforðum um margföld þau mánaðarlaun, selji allar eignir sínar í Víetnam og greiði margar milljónir til að geta komið til Íslands að vinna. Rétt eins og forfeður og formæður okkar fluttust í þéttbýlið í leit að betri tækifærum.
Brotið á réttindum launafólks
Í vinnustaðaeftirliti ASÍ og stéttarfélaganna sjáum við ítrekað og reglulega brotið á réttindum launafólks. Ég get nefnt tvo starfsmenn á hóteli sem áttu ekki einn frídag yfir allt sumarið og voru á vakt allan sólarhringinn. Ég get nefnt dæmi um konu sem svaf með stól fyrir dyrunum síðustu nótt sína í húsnæði atvinnurekandans því hún óttaðist um öryggi sitt. Ég get nefnt starfsmenn starfsmannaleigu sem fengu launaseðla með mínusupphæðum og enduðu á að þurfa að hnupla mat í Bónus, þrátt fyrir að vera í vinnu. Réttindi launafólks, sem þó hefur verið samið um, eru brotin á hverjum degi.
Vistarband nútímans
Núna nýlega afhjúpaðist fyrir okkur, íslensku samfélagi, að hið svokallaða vistarband er ekki með öllu horfið. Það birtist okkur í stöðu sumra sem hingað koma til að vinna, til dæmis frá Víetnam. Hópur Víetnama starfaði hér, sumir árum saman, í sannkallaðri þrælkunarvinnu, fyrir allra augum. Þau voru bundin atvinnurekanda sínum og upp á hann komin með nánast alla sína tilveru.
Árið 1956 voru atvinnuleysistryggingar teknar upp á Íslandi, en allt fram að því beið fólks ekkert nema Guð og gaddurinn, missti það vinnuna. Núna, næstum 70 árum síðar, er Víetnaminn sem starfaði í þrælavinnu í þrjú ár á íslenskum vinnumarkaði í sömu stöðu. Hann á engan rétt á atvinnuleysisbótum þegar hann loksins losnar undan ánauðinni. Pælum í því!
Ótímabundið dvalarleyfi – 10 kúgildi
Þau sem störfuðu undir hinu svokallaða vistarbandi áttu sér einungis eina leið til að verða frjáls, þau urðu að eignast minnst ígildi 10 kúa (10-20föld árslaun), þá gátu þau gerst lausamenn og ráðið hvar þau störfuðu hverju sinni. Í dag, meira en hundrað árum síðar, býr hér á landi fólk sem þráir ekkert heitar en að fá ótímabundið dvalarleyfi og frelsið sem því fylgir. Segja mætti að ótímabundið dvalarleyfi sé ígildi 10 kúa á tímum vistarbandsins. Þeir Víetnamar sem losnuðu nýlega undan þrælkunarvinnu, með aðstoð verkalýðshreyfingarnar og stjórnvalda, þrá ekkert heitar en að hljóta ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi.
Keðjan er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn
Verkalýðshreyfingin er mannúðar- og mannréttindahreyfing. Hún snýst um rétt launafólks til að lifa mannsæmandi lífi. Hún snýst um að virkja samstöðuna til þess að verja hagsmuni heildarinnar, ekki fáeinna. Samstaða launafólks er eina mótstaðan gegn hinum fáu og ríku. Verkalýðshreyfingin veit að keðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkur hennar. Ef ekki er hlúð að veikasta hlekknum, er hætta á að kveðjan slitni.
Sú meðferð á víetnömsku launafólki sem afhjúpaðist okkur nýlega, minnir okkur á að við þurfum sífellt að verja áunnin réttindi. Að hundrað árum liðnum verður okkur vonandi litið aftur til mála víetnamska launafólksins með sömu gleraugum og við lítum í dag á vistarbandið í íslenskum sveitum hér áður fyrr.
Góðu félagar.
Misneyting launafólks er afleiðing af misskiptingu. Hún viðgengst þegar regluverk kringum vinnumarkaðinn er ekki nægilega sterkt, þegar stofnanir sem hafa eftirlit á vinnumarkaði eru veiktar smám saman, þegar misneytingunni er leyft að viðgangast og samfélagið lítur í hina áttina.
Íslensk verkalýðshreyfing hefur sýnt oft og ítrekað gegnum tíðina að með samstöðu að vopni er hægt að bæta kjör og vinna sigra gegn misskiptingu.
Með sterkri verkalýðshreyfingu, byggjum við sterkt samfélag.
Til hamingju með daginn launafólk!





