Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Efling styður áfrýjun í máli rúmenskra félagsmanna 

Efling – stéttarfélag mun styðja fjóra rúmenska félagsmenn sína til að skjóta til Landsréttar sýknu- og frávísunardómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í gær í máli þeirra gegn starfsmannaleigunni Menn í vinnu, forsvarsmönnum starfsmannaleigunnar og matsölufyrirtækinu Eldum rétt.

Í dómnum er frávísun á kröfum félagsmannanna gegn starfsmannaleigunni og Eldum rétt rökstudd með því að starfsmannaleigan hafi, þegar að dómsuppkvaðningu kom, verið afskráð sökum gjaldþrots og því sé ekki hægt að reisa kröfur gegn henni. Þar með sé heldur ekki hægt að reisa afleiddar kröfur samkvæmt keðjuábyrgð gegn notandafyrirtækinu Eldum rétt. Frávísun málshöfðunar gegn Eldum rétt og Mönnum í vinnu byggir því ekki á efnisumfjöllun um tiltekin brot, heldur á túlkun gjaldþrotalaga og laga um starfsmannaleigur. Sú túlkun, standi hún óbreytt, rýrir mjög gildi laga um keðjuábyrgð og hvetur til beitingar gjaldþrots sem undanskotsleiðar.

Dómurinn felur einnig í sér viðurkenningu á rétti atvinnurekenda til einhliða frádráttar af launum, án þess að krafa sé gerð um tilheyrandi samninga eða gögn, sem sanni að um raunverulegan kostnað sé að ræða. Þannig er samþykkt að atvinnurekandi komi starfsfólki sínu fyrir í óleyfishúsnæði og dragi fyrir það af launum þeirra einhliða ákveðna húsaleigu án þess að greiðslan eigi sér stoð í leigusamningi. Einnig er fallist á frádrátt af launum vegna annarra útgjaldaliða án þess að sönnur hafi verið færðar á þá með kvittunum.

Í dómsforsendum eru nefndar ýmsar málsástæður varnaraðila sem ekki var getið um í málflutningi Eldum rétt og Manna í vinnu og félagsmennirnir áttu ekki kost á að bregðast við. Því er þannig haldið fram að Efling hafi ekki tilkynnt um slæman húsakost umræddra félagsmanna til lögreglu. Er þar farið rangt með veigamikið efnisatriði, en Efling stóð að baki kæru til héraðssaksóknara fyrir hönd fjórmenninganna og 14 annarra félagsmanna sem lögð var inn til embættisins þann 18. apríl 2020 auk þess að tilkynna um málið til Félagsmálaráðuneytis og mansalsteymis höfuðborgarsvæðisins. Málið er enn í virkri rannsókn hjá héraðssaksóknara.

Gerðar eru ríkar kröfur í dómnum um sönnunarábyrgð félagsmannanna, og þeir meðal annars inntir eftir nafnalista því til sönnunar að tiltekinn fjöldi einstaklinga hafi búið með þeim í herbergjum í umræddu óleyfishúsnæði. Vandséð er hvernig félagsmennirnir hefðu átt að komast yfir slíkan lista eða með hvaða rétti hægt sé að krefja þá um ábyrgð á slíkri gagnaöflun.

Í ljósi mikilla vankanta á umfjöllun Héraðsdóms um málið telur Efling hann óviðunandi. Stéttarfélagið mun styðja félagsmennina til að leita frekari réttar síns með aðstoð lögmannsstofunnar Réttar, sem farið hefur með málið, ákveði félagsmennirnir það. Felur það í sér að frávísun verður kærð og sýknudómi áfrýjað.

Author

Tengdar fréttir