Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Samstaða fyrir starfsfólk Icelandair

Forsetateymi Alþýðusambands Íslands ásamt formönnum í Flugfreyjufélagi Íslands, VR, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis og Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis áttu fund í morgun þar sem farið var yfir grafalvarlega stöðu í kjaradeilu Icelandair við Flugfreyjufélagið. Undirliggjandi eru hótanir um að „leita annarra leiða“ frekar en að klára kjarasamninga við flugfreyjur- og þjóna. Verður slík hótun aðeins skilin þannig að Icelandair ætli sér að virða að vettugi leikreglur íslenska vinnumarkaðarins og fara í félagsleg undirboð.

Nú þegar hefur Icelandair flutt störf frá skrifstofu félagsins til láglaunasvæða annars staðar í heiminum en slíka þróun verður að stöðva og vinda ofan af ef félagið ætlar að njóta þeirra stöðu sem það hefur í íslensku atvinnulífi.

Það er alveg ljóst að það eru ekki hagsmunir launafólks að lífeyrir sé notaður til að styðja við fyrirtæki sem grefur undan samningsrétti og lífskjörum fólks á íslenskum vinnumarkaði. Ekki verður séð hvernig lífeyrissjóðir geta virt eigin siðareglur og fjárfestingastefnu en jafnframt tekið þátt í hlutafjárútboði félags sem grefur undan hagsmunum launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Einnig er það skýr krafa verkalýðshreyfingarinnar að stjórnvöld noti ekki sameiginlega sjóði okkar til að styðja við Icelandair nema réttindi starfsfólks séu virt. Vinnandi fólk á Íslandi hefur ýmis úrræði til að knýja á um kjarasamninga og verja rétt sinn og stöðu. Samtakamáttur okkar er sterkur. Icelandair er nauðugur sá kostur að virða sitt starfsfólk og ganga til kjarasamninga við stéttarfélög þeirra ef fyrirtækið ætlar að vera húsum hæft í íslensku samfélagi.

Author

Tengdar fréttir