Vilhjálmur segir af sér sem 1. varaforseti ASÍ

Höfundur

Ritstjórn

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti ASÍ hefur sagt af sér varaforsetaembættinu. Ástæðan fyrir úrsögn Vilhjálms er að hans sögn djúpstæður ágreiningur milli hluta aðila í samninganefnd ASÍ um hvernig eigi að koma til móts við óskir atvinnurekenda um leiðir til að milda höggið af niðursveiflunni vegna Covid-19 faraldursins á atvinnulífið.

Samninganefnd ASÍ var samstíga í því að hafna ósk SA um að fresta launahækkunum sem tóku gildi 1. apríl. Hins vegar var Vilhjálmur Birgisson, og reyndar Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR einnig, ósáttur við að meirihluti samninganefndarinnar skildi hafna hugmyndum um að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna yrði lækkað um 3,5 prósentustig tímabundið vegna yfirstandandi efnahagsvanda. Vegna þessa ágreinings sagði Vilhjálmur af sér forsetaembættinu og Ragnar Þór Ingólfsson og Harpa Sævarsdóttir varaformaður VR sögðu sig úr miðstjórn ASÍ.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði eftir að þessi tíðindi lágu fyrir:

“Mér finnst það leitt að fólk hafi gengið úr skaftinu af því það veikir okkur sem hreyfingu. Við eigum að geta tekist á, rætt saman í trúnaði og staðið með niðurstöðunni. Þar sem lífeyrissjóðsmálin hafa verið til umfjöllunar eftir „tilboð“ SA þá vil ég halda því til haga að ef þessi tillaga hefði hlotið hljómgrunn í samninganefnd ASÍ hefði hún komið til umfjöllunar miðstjórnar og síðan félaganna. Eftir að okkar fólk heyrði í sínum félagsmönnum var ljóst að við myndum hafna þessari leið og þau viðbrögð sem ég hef fengið í dag staðfesta að þetta var rétt ákvörðun. 
 
Ég hef sagt það og segi áfram, ef á að skerða einhver réttindi eða kjör þá þarf það að gerast í víðtækara samráði og við vera þess fullviss að fólki sé bættur skaðinn með einhverju móti. Við erum áfram í samtali og samráði við stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins. Við tökum stöðuna á hverjum degi og bregðumst við eins og við getum.”

Tengdar fréttir

  • Ný rannsókn sýnir mikla óánægju meðal foreldra með svokallað Kópavogsmódel

    Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins kynnti í dag niðurstöður nýrrar viðtalsrannsóknar…

    Ritstjórn

    2. okt 2025

  • Samband íslenskra samvinnufélaga blæs til málþings

    Þann 3. september næstkomandi kl. 16 verður málþing í Kaldalóni…

    Ritstjórn

    2. sep 2025

  • Alþýðusamband Íslands og Lúðrasveit verkalýðsins hafa endurnýjað samstarf sitt

    Samstarf þessara tveggja aðila á sér djúpar rætur í íslenskri…

    Ritstjórn

    3. jún 2025