Samningar tókust í nótt milli Eflingar og Reykjavíkurborgar

Höfundur

Ritstjórn

Efling – stéttarfélag og Reykjavíkurborg undirrituðu í nótt, 10. mars 2020, kjarasamning eftir meira en mánaðarlangar verkfallsaðgerðir félagsmanna Eflingar og stífar viðræður hjá ríkissáttasemjara. Með samningnum hefur verið stigið mikilvægt skref í átt að kjaraleiðréttingu láglaunafólks og kvennastétta. Verkfallsaðgerðum gagnvart Reykjavíkurborg er því lokið.

Með samningnum hækka byrjunarlaun Eflingarfélaga í lægstu launaflokkum um allt að rúmlega 112.000 krónur á samningstímanum miðað við fullt starf. Hækkunum umfram 90 þúsund króna taxtahækkun að fyrirmynd almenna vinnumarkaðarins er náð fram með töflubreytingu sem skapar að meðaltali um 7.800 krónur í viðbótargrunnlaunahækkun hjá öllum Eflingarfélögum og einnig er samið um sérstaka viðbótarhækkun lægstu launa í formi sérgreiðslu.

Sérgreiðslan sem um samdist er 15.000 krónur í lægstu launaflokkum og fjarar út eftir því sem ofar dregur í launaflokkum. Sérgreiðslan kemur á 26 starfsheiti Eflingar önnur en þau sem þegar hafa sérstaka kaupauka. Hún mun skila sér í stiglækkandi mynd til tæplega þriggja af hverjum fjórum Eflingarfélagum hjá borginni.

Margvíslegar kjarabætur aðrar en grunnlaunahækkanir eru í samningnum, svo sem stytting vinnuvikunnar, útfærð bæði fyrir dagvinnu- og vaktavinnufólk. Greiðsla 10 yfirvinnutíma á mánuði til leikskólastarfsfólks er nú tryggð í kjarasamningi í formi nýrrar sérgreiðslu. Námskeiðum og fræðslu er gefið aukið vægi í launamyndun einstakra starfsmanna.

Efling lítur á samninginn sem sigur eftir langa og stranga baráttu þar sem tekist var hart á um réttmæti krafna félagsins og verkfallsvopninu beitt.

Samningurinn nær til um 1.850 Eflingarfélaga í störfum hjá Reykjavíkurborg. Langflestir þeirra eru konur. Gildistími samningsins er til 31. mars 2023.

Tengdar fréttir

  • Aðgerðir tengdar kjarasamningum taka gildi

    Við gerð kjarasamninga gerði verkalýðshreyfingin kröfur á stjórnvöld um aðgerðir…

    Ritstjórn

    5. jún 2024

  • Mikill stuðningur við kjarasamning SGS og SA

    Kjarasamningur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur verið…

    Ritstjórn

    19. des 2022

  • Vörukarfa ASÍ hækkaði í 6 af 8 verslunum á 6

    Á 6 mánaða tímabili, frá lokum mars 2021 fram í…

    Ritstjórn

    15. okt 2021