Fjármálaáætlun endurspegli loforð og tryggi félagslega framþróun

Höfundur

Ritstjórn

Stjórnvöld hafa boðað breytingar á samþykktri fjármálastefnu og fyrirliggjandi tillögu um fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem nú er til meðferðar á Alþingi. Þetta eru viðbrögð við breyttum spám um þróun efnahagsmála en gert er ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði um 40 milljörðum króna lakari en núverandi fjármálaáætlun gerir ráð fyrir. Sú staða sem upp er komin er langt frá því að vera ófyrirséð.

ASÍ áréttar mikilvægi þess að fjármálaáætlun endurspegli þau loforð sem stjórnvöld hafa gefið launafólki í tengslum við nýafstaðna kjarasamninga og að fyrirheit um skattkerfisbreytingar til handa launafólki skili sér án tafa. Áformaðar breytingar mega ekki verða til þess að draga úr getu ríkissjóðs til þess að standa undir heilbrigðis- og velferðarþjónustunni og tryggja uppbyggingu nauðsynlegra samfélagsinnviða eða leiða til aukinna notendagjalda og nefskatta. Verkalýðshreyfingin mun aldrei samþykkja að hinni félagslegu framþróun sé ógnað með því að grundvallarstoðir velferðarkerfisins séu nýttar til þess að jafna sveiflur í ríkisrekstirnum.

Stefna stjórnvalda í ríkisfjármálum hefur byggt á því að afgangur af ríkisrekstrinum grundvallast fyrst og fremst á tímabundinni aukningu tekna vegna mikilla umsvifa á uppgangstímum sem eiga sér fá fordæmi. Þegar tekið hefur verið tillit til hagsveiflunnar hefur rekstur ríkisins í reynd verið í járnum undanfarin ár. Samhliða þessu hafa tekjustofnar markvisst verið veiktir. Má þar nefna afnám auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda, lækkun á neyslusköttum og tollum auk þess sem stjórnvöld hafa látið hjá líða að sækja auknar tekjur t.d. til ferðþjónustunnar. ASÍ hefur ítrekað gagnrýnt þessa stefnu og haft uppi varnaðarorð um að afleiðingarnar verði þær að þegar hægir á í efnahagslífinu muni tekjur ríkissjóðs ekki duga til að fjármagna nauðsynleg útgjöld. Þá blasir við aðhald og niðurskurður í ríkisrekstrinum. Þessi staða raungerist í fyrirliggjandi fjármálaáætlun.

Tengdar fréttir

  • Gallað frumvarp um breytt raforkulög  

    Frumvarp til laga um um breytingar á raforkulögum og lögum…

    Ritstjórn

    5. mar 2025

  • NÁMSKEIÐIÐ UNGIR LEIÐTOGAR HALDIÐ Í ÞRIÐJA SINN

    Ungir leiðtogar er námskeið ætlað ungu fólki innan verkalýðshreyfingarinnar. Áhersla…

    Ritstjórn

    20. jan 2025

    Ungir leiðtogar
  • Kvennaráðstefna ASÍ 2024 

    Ryðjum hindrunum úr vegi – kvenfrelsi og stéttabarátta. Kvennaráðstefna ASÍ…

    Ritstjórn

    14. nóv 2024