Verð á súkkulaði hækkar víða miðað við janúar, en misjafnlega eftir framleiðendum og verslunum. Þetta kemur fram í samanburði verðlagseftirlitsins á sælgætis- og súkkulaðiverði í síðustu viku miðað við 22. janúar. Verð á súkkulaði frá Nóa Síríus hækkar mest, en verð á vörum frá Freyju hækkar minnst og lækkar í einhverjum tilfellum.
Verð á öðru sælgæti frá Nóa Síríus og Góu-Lindu tekur minni breytingum en súkkulaðið og stendur í einhverjum verslunum í stað eða lækkar, sem sjá má á grafinu hér að neðan.
Verð hækkaði minnst, og í mörgum flokkum ekki, í þremur verslunum: Heimkaup, Extra og 10-11.
Súkkulaðiplötur vógu þyngst í hækkunum Nóa Síríus. Þær hækkuðu margar um 15-25% í Bónus, til dæmis 46gr lakkrísrjómasúkkulaði (25%) og súkkulaðiplata með hnetum og rúsínum (19%). Í Krónunni hækkuðu þrjár rjómasúkkulaðiplötur Nóa Síríus (hrein, hnetu&rúsínu og karamellu&salt) um 19%. Lindu mjólkursúkkulaðiplata hækkaði um 12% í Krónunni og Lindu suðusúkkulaði um 10%. Hins vegar stóð verð á Freyju mjólkursúkkulaði með bombum í stað í Bónus.
Engin dæmi fundust um verðhækkanir á Omnom súkkulaði, en 28 verð voru skoðuð í sex verslunum. Verð á Ritter Sport súkkulaðiplötum (mjólkursúkkulaði, marsipan og saltmöndlu) hefur verið 250 krónur í Krónunni og 249 krónur í Bónus frá ágústlokum.
Verð á vörum frá Freyju stóð í stað eða hækkaði að meðaltali um minna en 0,25% í Bónus, Krónunni, Fjarðarkaupum, Heimkaupum, Hagkaup, Extra og 10-11. Það lækkaði í Nettó, Kjörbúðinni, Iceland og Krambúðinni.
Verðlagseftirlitið kannaði verð á páskaeggjum þann 25. mars, sem skoða má hér. Athygli vekur að árshækkun á páskaeggjum er í einhverjum verslunum minni en tveggja mánaða hækkun á öðru súkkulaði frá Góu-Lindu og Nóa Síríus.
Um könnunina
Könnunin var framkvæmd í tvennu lagi. Verð frá 22. janúar voru borin saman við verð tekin annars vegar 20. mars (Iceland, 10-11, Extra, Krambúðin og Kjörbúðin) og hins vegar 22. mars (Bónus, Krónan, Nettó, Fjarðarkaup, Heimkaup og Hagkaup). Skoðað var súkkulaðinammi annars vegar og annað sælgæti hins vegar. Um sjö þúsund stakar verðmælingar liggja að baki könnuninni, þar af tæpar þrjú þúsund á vörum frá Nóa Síríus, Góu-Lindu og Freyju.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.