Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Um 80% telja samkeppniseftirlit of lítið 

Næstum því 80% landsmanna telja eftirlit með samkeppni á íslenskum neytendamarkaði heldur eða allt of lítið. Lítill hluti almennings telur það of mikið.  

Þetta kemur fram í nýrri þjóðmálakönnun Alþýðusambands Íslands (ASÍ).  

Spurt var: Finnst þér eftirlit með samkeppni á íslenskum neytendamarkað vera of lítið, hæfilegt eða of mikið? 

Spurningunni svöruðu 79% á þann veg að það væri of lítið, 16% töldu það hæfilegt og 6% of mikið.  

Þá afstöðu að hér á landi gangi eftirlit með samkeppni á neytendamarkaði of langt var helst að finna í hæstu tekjuhópum, meðal fólks með háskólapróf og í röðum kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.  

Mikill meirihluti telur samkeppnisreglur ófullnægjandi 

Einungis 14% landsmanna telja núverandi samkeppnisreglur á íslenskum neytendamarkaði gagnast vel til að skapa jákvætt samkeppnisumhverfi. Þetta kemur fram í nýrri þjóðmálakönnun Alþýðusambands Íslands. 

Spurt var: Telur þú að núverandi reglur um samkeppni á íslenskum neytendamarkaði gagnist vel eða illa til að skapa jákvætt samkeppnisumhverfi?  

Þessari spurningu svöruðu 60% á þann veg að það hefði tekist frekar eða mjög illa. Önnur 27% lýstu sig hlutlaus gagnvart spurningunni.  

Ekki kom fram skýr munur á afstöðu kvenna og karla. Hið sama er að segja um búsetu.  

Kjósendur Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Viðreisnar voru einna helst þeirrar skoðunar að vel hefði tekist til í þessu efni.  

Um 60% kjósenda Samfylkingarinnar töldu reglurnar gagnast frekar eða mjög illa. Svipuð afstaða kom fram hjá kjósendum Pírata, Miðflokksins og Sósíalistaflokksins.  

Hér má sjá nánari greiningu á svörum við þessari spurningu.  

Um könnunina: 

Gallup framkvæmdi könnunina 12.-23. september 2024.  

Þetta var netkönnun sem náði til 1.722 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, sem handahófsvaldir voru úr Viðhorfahópi Gallup.  

Stærð úrtaks  og svörun: 
Úrtak: 1,722 
Svara ekki: 851 
Fjöldi svarenda: 871 
Þátttaka: 50,6% 

Tengdar fréttir