Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Stjórnarskrárbrot þingnefndar fáheyrð ósvífni

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir það lýsa fáheyrðri ósvífni af hálfu stjórnarþingmanna að þrýsta í gegnum Alþingi umdeildu frumvarpi um undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum

„Stjórnarþingmenn og formaður atvinnuveganefndar sérstaklega voru margoft upplýstir um að þessi málsmeðferð stæðist enga skoðun þar sem  frumvarpið sem borið var upp átti ekkert sameiginlegt með upphaflega frumvarpinu nema málsnúmerið,“ segir Finnbjörn og bætir við að það sé tæpast fallið til að styrkja lýðræðið í sessi að þingmenn brjóti gegn stjórnarskrá landsins í störfum sínum.

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu mánudaginn 18. nóvember að breytingar meirihluta atvinnuveganefndar á upphaflegu frumvarpi um búvörulög hafi verið það miklar að nefndinni hefði borið að leggja málið fram á ný. Frumvarpið hafi af þeim sökum ekki fengið áskildan fjölda umræðna. Afgreiðsla málsins hafi því falið í sér brot gegn stjórnarskrá lýðveldisins og hafi ekkert lagagildi.

Fyrr í dag upplýsti Ríkisútvarpið að lögfræðingar á nefnda- og greiningarsviði Alþingis hefðu talið breytingartillögur meirihluta atvinnuveganefndarinnar svo viðamiklar að best færi á því að lagt yrði fram nýtt frumvarp um sama efni. Þessu sjónarmiði var komið á framfæri við formann atvinnuveganefndar sem hundsaði álitið og keyrði málið í gegnum Alþingi sem samþykkti það 21. mars.

„Málsmeðferðin með miklum ólíkindum“

Alþýðusamband Íslands var á meðal fjölmargra samtaka og félaga sem andmæltu frumvarpinu. Í yfirlýsingu ASÍ sem birt var sama dag og frumvarpið varð að lögum segir m.a. að matvælaráðherra hafi lagt fram drög að frumvarpi sem kynnt var í samráðsgátt og síðan lagt fram á Alþingi. Nú hafi meirihluti atvinnuveganefndar lagt fram svo róttækar breytingar á frumvarpinu að fullyrða megi að ekki sé á ferð sama mál og ýmsir hagaðilar tjáðu sig um í umsagnarferlinu.

Yfirlýsingunni lýkur svo: „ASÍ telur alla meðferð málsins með miklum ólíkindum og hvetur þingmenn til að huga að afleiðingum gjörða sinna. Ólíðandi er með öllu að vélað sé um hagsmuni fólksins í landinu með svo ófyrirleitnum hætti, nánast í skjóli nætur, í bakherbergjum Alþingis.“

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, vísar til þessarar yfirlýsingar og segir hana fjarri því einu viðvörunina sem stjórnarþingmenn í  atvinnuveganefnd hafi fengið um vafasama meðferð málsins. „Við höfum í seinni tíð sjaldan séð sérhagsmunaöflin stjórna störfum þingsins með svo skýrum hætti. Þetta er áfall fyrir lýðræðið í landinu og þeim þingmönnum sem að þessu stjórnarskrárbroti stóðu til mikillar skammar. Þetta er enn ein áminning þess hversu mikilvægt það er að hreyfing launafólks og fleiri slík samtök haldi uppi vörnum fyrir almannahagsmuni gagnvart sérhagsmunavörslu stjórnmálamanna.

Author

Tengdar fréttir