Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Bjarni hafnar viðvörunum sænskra sérfræðinga

Tekist á um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu á kosningafundi Alþýðusambandsins og BSRB

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, vísaði á bug viðvörunum sænskra sérfræðinga um neikvæðar afleiðingar einkavæðingar í velferðarþjónustu á kosningafundi Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB sem fram fór í Reykjavík á mánudag. Á fundinum, sem fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum sátu, kom í ljós djúpstæður ágreiningur um einkavæðingu í velferðarkerfinu.

Á fundinum, sem þau Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, stýrðu var sýnt myndband þar sem þekktur sænskur sérfræðingur, Lisa Pelling, gerði grein fyrir hörmulegri reynslu Svía af einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu. Varaði hún Íslendinga alvarlega við að fara sömu leið.  

Tal um niðurskurð þvættingur

Forseti ASÍ spurði Bjarna Benediktsson um sífellt lengri biðlista í heilbrigðiskerfinu og ættu þeir nú ekki eingöngu við sérfræðinga heldur einnig þjónustu almennra heimilislækna. Þá nefndi Finnbjörn að sífellt erfiðara væri fyrir fólk á landsbyggðinni að nálgast heilbrigðisþjónustu. Forsetinn minnti á að flokkur forsætisráðherrans, Sjálfstæðisflokkurinn, hefði að mestu stjórnað ríkisfjármálum frá árinu 2013.

Bjarni Benediktsson sagði allt tal um niðurskurð í þessum málaflokki þvætting. Líka heyrðust þær raddir að of miklum fjármunum væri varið í heilbrigðismálin. Hið rétta væri að nú væri varið 80 milljörðum króna meira til heilbrigðismála en árið 2017 þegar sjö ára samstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG hófst. Mest af þessum fjármunum  færi til starfsfólks í heilbrigðisþjónustu í formi launa.

„Þú spyrð hvernig við getum stytt biðtímann. Með meiri fjármunum? Ég tel að við verðum að átta okkur á því að heilbrigðisþjónustan mun stöðugt verða okkur dýrari og dýrari. Við eldumst hratt. Við lifum lengur. Við þurfum skilvirkara kerfi sem býður upp á fyrsta flokks lausnir. Við þurfum á tæknilegum lausnum að halda. Landlæknisembættið hefur ekki viljað leyfa fjarlækningar. Þurfir þú á lækni að halda ættir þú að geta náð við hann sambandi í gegnum netið.“

Þurfum ekki Svía til að leysa okkar vandamál

Forsætisráðherra sagði þjónustu í heilbrigðiskerfinu mjög góða en hún væri að mestu borin uppi af innflytjendum. „Eftirspurnin eftir mannauði er svo mikil. Við verðum að skapa hvata fyrir fólk til að koma heim til Íslands og vinna hér og starfa á landsbyggðinni. Þetta er fólk sem lokið hefur margra ára námi. Þegar þetta fólk skoðar möguleika sína staldrar það við staðsetningu og önnur lífsskilyrði. Við verðum að greiða fyrir því að þetta fólk fáist til starfa þar sem þörf er á þekkingu þess. Ég vísa sænska myndabandinu algjörlega á bug. Við þurfum ekki á Svíum að halda til að leysa okkar vandamál. Við þekkjum okkar aðstæður mun betur en þeir. Hvaða íslensk dæmi eru um þetta? Fyrst einkavæðingin er svona hröð hlýt ég að spyrja hvar eru dæmin um slæm áhrif hennar hér á landi?  Þetta er ekki satt. Þetta á ekki við hér. Heilbrigðiskerfið virkar vel hérna fyrir okkur. Við eigum ekki að tala heilbrigðiskerfið okkar niður.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir brást við þessari ræðu forsætisráðherra með því að benda á að sænsku sérfræðingarnir væru ekki að lýsa stöðunni hér á landi heldur að vara Íslendinga við einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu sem kostaði meira en opinbert kerfi og skilaði einnig verri þjónustu. Sú hefði einmitt verið reynsla Svía.  Sonja spurði hvort þessar ráðleggingar gengju ekki þvert á nýlegar ákvarðanir heilbrigðisráðuneytisins.

Aðkoma einkafyrirtækja að hjúkrunarheimilum ekki einkavæðing

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði að störf heilbrigðisráðherra flokksins, Willums Þórs Þórssonar, miðuðu að því að koma í veg fyrir að hér á landi myndaðist tvöfalt heilbrigðiskerfi.  Taldi Sigurður Ingi heilbrigðisráðherra hafa náð markverðum árangri í að stytta biðtíma eftir mjaðma- og hnjáliða-aðgerðum.

Sigurður Ingi vék því næst að þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að semja við „sérhæfð einkafyrirtæki“ um byggingu hjúkrunarheimila. Lýsti hann því yfir að þar væri ekki um einkavæðingun að ræða. Staðreyndin væri sú að nú væru fyrir hendi 3.000 hjúkrunarrými í landinu og 1.500 vantaði til viðbótar. Ráðherrann sagði uppbyggingu hjúkrunarheimila ekki hafa gengið vel af ýmsum sökum.

Sigurður Ingi líkti aðkomu einkafyrirtækja að byggingu og útleigu hjúkrunarheimila til ríkisins við það vel þekkta og gamla rekstrarform sem m.a. Hrafnista, Grund, Eir og fleiri hjúkrunarheimili hefðu lengi fylgt. „Við viljum að þessi hjúkrunarheimili rísi sem fyrst. Willum hefur gengið til þessara samninga til að jafna aðgengi að þessari þjónustu. Þetta er ekki einkavæðing.“

Samfylkingin andvíg arðgreiðslum í heilbrigðisþjónustu

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði aðspurð hvort hún styddi einkavæðingu í byggingu og rekstri hjúkrunarheimila blasa við að uppbygging hefði ekki verið í samræmi við þörf. Vera kynni að sú leiguaðferð sem Sigurður Ingi væri talsmaður fyrir gæti hjálpað í einhverjum tilvikum. Hins vegar væri samanburður hans við Grund, Hrafnistu og fleiri ekki réttmætur þar sem þau hjúkrunarheimili væru ekki rekin í hagnaðarskyni. Ætti að hleypa einkafyrirtækjum inn í þennan geira þyrfti að setja skýrar reglur um hvaða arðgreiðslur ætti að heimila. Hún kvaðst hafa setið fundi um málið og henni væri enn ekki ljóst hvernig leiguleiðin ætti að spara fjármuni í velferðarkerfinu. Hún hefði ekki séð nein gögn sem bentu til þess að ríkið gæti sparað fjármuni með að fara leiguleið Willums Þórs og framsóknarmanna. Kristrún sagði ljóst að Samfylkingin myndi aldrei samþykkja að einkafyrirtæki tækju út arðgreiðslur á grundvelli veittrar heilbrigðisþjónustu.

Opinbert kerfi fyrir alla

Þær Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, og Sanna Magdalena Mörtudóttir, fulltrúi Sósíalistaflokksins, lögðu allar áherslu á mikilvægi þess að opinberu heilbrigðiskerfi yrði viðhaldið á Íslandi. Þórhildur Sunna sagði Pírata vilja velferðarkerfi þar sem minni áhersla yrði lögð á fjármál og landsframleiðslu. Svandís sagði heilbrigðis- og menntakerfið vera grundvöll samfélagsins en ekki útgjaldavanda. Arðgreiðslur fyrir veitta heilbrigðisþjónustu fælu í sér hagnað á grundvelli heilsuleysis annarra og það fyrirkomulag væri samfélaginu ekki hagfellt. Sanna Magdalena sagði viðvaranir sænsku sérfræðinganna um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu mikilvægar og að tryggja þyrfti gott heilbrigðiskerfi sem allir ættu aðgang að. Sú væri ekki raunin nú vegna þess að fátækt fólk þyrfti iðulega að neita sér um lyf og læknisþjónustu.

Author

Tengdar fréttir