– þegar kerfið heldur fólki í gíslingu
Á Íslandi dvelur fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd árum saman í óvissu á meðan beðið er eftir afgreiðslu mála þeirra.
Málsmeðferðin fer fram á tveimur stjórnsýslustigum og tekur u.þ.b. eitt til þrjú ár, allt eftir aðstæðum. Það sem verra er, þá liggur fyrir frumvarp um að afnema 18 mánaða tímafrest sem stjórnvöld hafa verið bundin, en honum er ætlað að koma í veg fyrir óhóflegan drátt á málum. Með því að afnema hann skapast hætta á að hvatar stjórnvalda til þess að vinna málin á skilvirkan hátt hverfi og málsmeðferðartími lengist enn frekar, með tilheyrandi kostnaði – bæði fyrir ríkissjóð og andlega heilsu umsækjenda.
Á meðan á þessari bið stendur er meginreglan sú að umsækjendur hafi ekki heimild til að vinna. Mögulegt er að sækja um tímabundið atvinnuleyfi, en skilyrðin eru svo ströng og flókin að mörgum reynist ómögulegt að uppfylla þau.
Fólk í neyð vill líka vinna
Í opinberri umræðu um málefni þessa hóps ber of oft við að fólk er dregið í dilka. Bent er á að þeir sem séu í raunverulegri neyð eigi að fá aðstoð í gegnum hæliskerfið, en þeir sem vilji vinna eigi að fara aðra leið – í gegnum almennt dvalar- og atvinnuleyfakerfi. Þá virðist það einnig vera ákveðinn misskilningur að þeir sem eru að flýja efnahagslega neyð geti ekki verið að flýja annars konar neyð einnig. Þetta getur eðli máls samkvæmt oft verið samtvinnað. Þannig er í reynd dregin upp mynd af því að fólk passi bara í annan flokkinn– annað hvort ert þú í neyð eða þú vilt vinna.
En raunveruleikinn er ekki svona tvískiptur. Fólk í neyð vill líka vinna.
Það er hvorki óeðlilegt né óskiljanlegt að manneskja sem bíður árum saman í óvissu, í sameiginlegu og oft ófullnægjandi húsnæði, með framfærslufé sem er bundið í reglugerð og hefur ekki fylgt verðlagsþróun, vilji vinna. Atvinna veitir ekki aðeins tekjur heldur líka tilgang, sjálfstæði, inngildingu og þátttöku í samfélaginu.
Misneyting á fólki í erfiðri stöðu er tvöfalt brot
Það er lífsseig mýta að hæliskerfið sé uppfullt af einstæðum karlmönnum sem hafi yfirgefið eiginkonur sínar og börn fyrir betri tækifæri í Evrópu. Staðreyndin er sú að flótti er oft og tíðum mjög kostnaðarsamur og hættulegur. Elsti karlmaðurinn í fjölskyldunni er því oft sendur á undan og fjölskyldan fylgir svo í kjölfarið þegar verndin er í höfn. Fyrir liggur að margir þessara einstaklinga hafa skyldum að gegna gagnvart fjölskyldu sinni sem dvelur enn í heimalandinu, í flóttamannabúðum eða á götum borga Evrópu, t.a.m. með því að senda þeim peninga. Staða þeirra er því afar krefjandi.
Þessa stöðu virðast sumir óprúttnir atvinnurekendur á Íslandi nýta sér.
Sú staðreynd að atvinnuleyfi fyrir þennan hóp séu jafn óaðgengileg og raun ber vitni skapar alvarlega hættu á misneytingu. Við sjáum þessa hættu þegar raungerast í samfélaginu – þegar atvinnurekendur nýta sér varnarlausa stöðu fólks í hæliskerfinu og fá þau til að vinna svart, með öllum þeim ókostum sem því fylgir, bæði fyrir þann sem vinnur en einnig samfélagið í heild. Þarna er því í raun um að ræða tvöfalt brot – annars vegar á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd og hins vegar gegn heilbrigðum vinnumarkaði.
Leyfum fólki að lifa en ekki bara bíða
Eitt þarf ekki að útiloka annað – að vera í leit að vernd og vilja vinna. Í raun er það einmitt samspil þessara þátta – þarfa og mannlegrar reisnar – sem ætti að vera leiðarljós í stefnumótun og umræðu um málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd. Auk þess má spara mikið fé í hæliskerfinu sjálfu með því að gera umsækjendum kleift að sjá sér farborða.
Manneskja sem hefur misst heimili sitt, fjölskyldu eða öryggi á skilið meira en bið og kyrrsetningu. Hún á skilið tækifæri til þátttöku, til þess að leggja sitt af mörkum, standa á eigin fótum – til þess að lifa, ekki bara bíða. Með því að gera fólki kleift að vinna – með skýrum en sanngjörnum reglum – styðjum við ekki aðeins við einstaklinga heldur einnig við heilbrigðan og heiðarlegan vinnumarkað.
Við getum og eigum að gera betur. Með því að einfalda leiðir til löglegrar atvinnu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd styðjum við mannlega reisn, komum í veg fyrir misneytingu og spörum fjármagn innan hæliskerfisins.
Það er bæði réttlætismál og skynsamleg samfélagsstefna.