Áhersla á lækkun skulda getur heft bata og viðhaldið atvinnuleysi

Höfundur

Ritstjórn

ASÍ gagnrýnir áform um „afkomubætandi aðgerðir“ í umsögn um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Áhersla stjórnvalda á að draga úr skuldum ríkissjóðs getur hægt á efnahagsbata hér á landi og viðhaldið háu atvinnuleysi. Skuldir ríkissjóðs eru lágar í öllum alþjóðlegum samanburði og meginmarkmið stjórnvalda hlýtur að vera að ýta undir fulla atvinnu.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026. Í umsögninni er vikið að áætlunum um sjálfbærni opinberra fjármála og gagnrýnt að ekki liggi fyrir hvernig stjórnvöld hyggist ná því markmiði. Miðað við núverandi horfur sé raunveruleg hætta á að efnahagsbati verði hægari en gert er ráð fyrir í áætluninni. Samkvæmt áætluninni aukist þá líkur á að „afkomubætandi aðgerðir“ sem svo eru nefndar leggist af auknum þunga á almenning og atvinnulíf.

Alþýðusambandið telur að huga beri að styrkingu tekjustofna á komandi árum þannig að eðlilegur viðsnúningur geti náðst í ríkisrekstrinum án þess að ráðist verði í niðurskurð á grunninnviðum samfélagsins. Í því samhengi gagnrýnir ASÍ þær skattabreytingar sem stjórnvöld hafi talið forgangsmál í djúpri efnahagskreppu. Þar megi nefna lækkun bankaskatts og breytingu á fjármagnstekjuskatti sem vinni gegn markmiðum um jöfnuð.

Í umfjöllun um aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við miklu atvinnuleysi telur ASÍ að finna megi „jákvæð skref“ en lögð er áhersla á að bregðast þurfi við atvinnuleysisvandanum sem skemmri tíma áskorun í formi beinna áhrifa af COVID-faraldrinum og lengri tíma áskorun sem birtist í auknu kerfislægu atvinnuleysi. Enn skorti sértækar aðgerðir til að mæta atvinnuleitendum á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti í COVID-kreppunni og atvinnuleysistryggingakerfið þurfi að vera fært um að tryggja viðunandi afkomu á meðan efnahagslífið nær sér á strik.

Umsögn ASÍ um fjármálaáætlun 2022-2026.

Tengdar fréttir

  • ASÍ styrkir Samhjálp um páska

    ASÍ styrkir Samhjálp um 400 þúsund krónur nú í aðdraganda…

    Arnaldur Grétarsson

    15. apr 2025

    Kaffistofa Samhjálpar og merki Samhjálpar
  • Opið fyrir umsóknir í Minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar 2025

    Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til…

    Arnaldur Grétarsson

    8. apr 2025

    Eðvarð Sigurðsson
  • Engar tryggingar í frumvarpi um verð á raforku til almennings

    Stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu raforkumála á Íslandi Alþýðusamband…

    Ritstjórn

    26. mar 2025