Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ályktun miðstjórnar ASÍ um móttöku flóttafólks og leyfi til að vinna

Miðstjórn ASÍ fagnar þeim skýra vilja sem birst hefur undanfarið hjá íslensku samfélagi og stjórnvöldum til að taka á móti Úkraínufólki á flótta. Í ályktun frá 2. mars sl. fordæmdi miðstjórn innrás rússneskra yfirvalda í Úkraínu og kallaði eftir því að íslensk stjórnvöld veittu úkraínsku flóttafólki þegar í stað vernd hér á landi. Spár gera nú ráð fyrir allt að 1.500 flóttamönnum frá Úkraínu til Íslands á næstu vikum. Gera má ráð fyrir að konur og börn verði í meirihluta þeirra sem hingað koma frá Úkraínu. Nauðsynlegt er að tryggja börnum og ungmennum aðgengi að menntun og jafnframt tryggja mæðrum nauðsynleg úrræði svo þær geti sótt vinnu ef þær geta og vilja. 

Þótt það sé óskandi að Úkraínufólk fái fljótlega að snúa til síns heimalands, er alveg óvíst að svo verði þar sem engin leið er að sjá fyrir hversu lengi stríðsástandið mun vara í Úkraínu. Því er mikilvægt að þau sem hingað koma fái tækifæri til þátttöku í íslensku samfélagi, óháð því hvort þau munu dvelja á Íslandi til skamms eða langs tíma.

Samkvæmt ákvörðun stjórnvalda hljóta Úkraínubúar sem hingað sækja fyrst um sinn dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til sameiginlegrar verndar vegna fjöldaflótta en gætu þegar fram líða stundir hlotið alþjóðlega vernd eða annars konar ótímabundin réttindi til dvalar. Dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum fylgir ekki atvinnuleyfi nema sérstaklega sé um það sótt og fyrir tiltekið starf. Þetta gerir að verkum að fólk sem er með dvalarleyfi á þessum grunni á oft mjög erfitt með að komast inn á íslenskan vinnumarkað. Miðstjórn ASÍ áréttar mikilvægi þess að flóttafólk frá Úkraínu eigi, eins og annað flóttafólk, skilyrðislausan rétt til framfærslu og að undir engum kringumstæðum sé fólki þrýst út á vinnumarkað nema það sé tilbúið til þess. Hins vegar er líka mikilvægt að þau sem vilja taka þátt í íslenskum vinnumarkaði fái til þess tækifæri. Núverandi umhverfi laganna reisir of háar girðingar gagnvart atvinnu sem getur aukið á þjáningar fólks og getur dregið úr möguleikum þeirra til þátttöku í íslensku samfélagi. Því telur miðstjórn að þeir einstaklingar sem njóta réttar til dvalar á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eigi að vera undanþegnir sérstökum kröfum um atvinnuleyfi.

Samhliða telur miðstjórn að fara þurfi fram skoðun á atvinnuréttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd (hælisleitenda). Vísbendingar úr vinnustaðaeftirliti ASÍ benda til þess að raunveruleg atvinnuþátttaka í þessum hópi sé miklu meiri en opinberar tölur gefa til kynna. Mál sem koma inn á borð stéttarfélaganna benda til þess að þessi hópur sé sérstaklega berskjaldaður fyrir misbeitingu af hendi atvinnurekenda, sem í verstu tilvikunum jaðra við mansal.

Miðstjórn ASÍ krefst þess að: 

  • Úkraínskt flóttafólk verði undanþegin kröfum um sérstaklega útgefið atvinnuleyfi og sama gildi um aðra einstaklinga sem eru með dvalarleyfi á sama grunni.
  • Framfærsla flóttafólks frá Úkraínu sé tryggð og það hljóti ríkan félagslegan stuðning meðan það dvelur hér og meðan mál þeirra eru til meðferðar.
  • Farið verði í sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir til að lækka þröskuldinn fyrir flóttafólk út á íslenskan vinnumarkað, t.d. með meira úrvali hlutastarfa og hvatningu til atvinnurekenda.

Author

Tengdar fréttir