Á íslenskum vinnumarkaði starfar fjöldi fólks sem hefur unnið störf sín af alúð og fagmennsku árum saman. Margir hafa kennt öðrum fagið en eru ekki með formlega menntun eða vottun sem staðfestir þá hæfni sem þeir búa yfir. Slíkt getur hamlað aðgengi að réttindum, bættum kjörum og tækifærum til starfsþróunar.
Í dag er þessi staða ekki aðeins óréttlát – hún er hreinlega orðin óhentug á vinnumarkaði sem breytist ört. Ný störf verða til, tæknin breytir verkefnum, og starfsfólk kemur úr ólíkum áttum með allskonar reynslu í farteskinu og fjölbreyttan menntunarbakgrunn og oft frá öðrum löndum. Það er því nauðsynlegt að hafa sanngjörn, sveigjanleg og fagleg verkfæri sem geta metið raunverulega hæfni – óháð því hvar og hvernig hún varð til.
Fagbréf atvinnulífsins eru einmitt slík viðurkenning.
Hæfni og reynsla metin
Raunfærnimat og Fagbréf atvinnulífsins eru lykilverkfæri í því ferli. Þekking og hæfni sem einstaklingur hefur öðlast í gegnum lífið, hvort sem það er í starfi, félagsstörfum, fjölskyldulífi eða öðru – utan veggja skólans – er metin.
Það sem skiptir máli er hvað fólk kann og getur, ekki hvernig eða hvar það lærði það.
Tvær meginleiðir eru færar í framkvæmd raunfærnimats. Annars vegar til styttingar á námi og hins vegar til vottunar á hæfni í ákveðið starf.
Þegar raunfærnimat er nýtt til styttingar á námi er hæfni metin á móti námskrám framhaldsfræðslu, framhaldsskóla eða háskóla, og hæfniviðmið áfanga lögð til grundvallar. Ef niðurstöður sýna að einstaklingur uppfyllir hluta (eða öll) hæfniviðmiða tiltekinnar námsbrautar, getur hann fengið viðurkenningu á því. Áfangar sem lokið er með raunfærnimati hafa sama gildi og áfangar sem lokið er með formlegu námi.
Fagbréf – Vottun á hæfni
Fagbréfi atvinnulífsins eru unnin út frá sömu hugmyndafræði. Fyrsta skrefið er að hæfnigreina starfið. Þá er skilgreint hvaða færni og þekkingu þarf til að sinna því á fullnægjandi hátt. Þessi viðmið eru ávallt unnin í samvinnu við viðkomandi fyrirtæki, stofnanir eða fagfélög og byggja því á raunverulegum þörfum. Því næst er aðferðafræði raunfærnimats nýtt. Einstaklingurinn fær tækifæri til þess að sýna fram á að hann búi yfir hluta, eða allri, þeirri hæfni sem krafist. Í framhaldi fer fram þjálfun og fræðsla sem tekur mið af niðurstöðum matsins.
Þegar öllum hæfniviðmiðum starfsins er náð er færnin staðfest með Fagbréfi atvinnulífsins fyrir viðkomandi starf.
Samvinna og traust – lykill að árangri
Útgáfa fagbréfa byggir ávallt á samstarfi við viðkomandi starfsgreinar, fyrirtæki eða stofnanir og er framkvæmd af viðurkenndum fræðsluaðilum um land allt (eða öðrum aðilum sem uppfylla gæðaviðmið). Fræðslumiðstöð atvinnulífsins gefur svo út Fagbréfin og vottar jafnframt að réttri aðferðafræði hafi verið beitt við framkvæmd mats og starfsþjálfunar.
Ávinningur fyrir alla
Fagbréfin styrkja stöðu launafólks á vinnumarkaði, efla sjálfstraust og geta opnað dyr að nýjum verkefnum, frekara námi eða starfsþróun innan fyrirtækisins.
Slík viðurkenning getur skipt sköpum fyrir einstaklinga ekki eru með formleg námslok frá framhaldsskóla og eykur jafnframt eykur jafnframt virðingu fyrir færniþróun sem á sér stað með þátttöku á vinnumarkaði.
Fyrir atvinnurekendur felst ávinningurinn meðal annars í því að fagbréfin gera hæfni starfsfólks sýnilega og mælanlega. Þeir fá betri yfirsýn yfir styrkleika teymisins, geta betur stýrt þróun mannauðs og byggt upp innri hæfnikerfi sem styðja við markmið fyrirtækisins. Með því að styðja við raunfærnimat og fagbréf sýna þeir einnig samfélagslega ábyrgð og virka þátttöku í að efla íslenskan vinnumarkað á sanngjarnan og sjálfbæran hátt.
Í þessu felst því ávinningur fyrir bæði starfsfólkið sjálft og atvinnurekandann, sem er ein megin forsenda þess að slík verkfæri öðlist öruggan sess á vinnumarkaði.
Viðurkenning í greinum þar sem menntakerfið nær ekki utan um störfin
Í mörgum sérhæfðum störfum er engin formleg menntun til staðar. Þar kemur Fagbréf sérstaklega að gagni. Það fyllir upp í tómarúm formlegs menntakerfis og veitir fólki sem hefur aflað sér færni á vinnustað, með verkefnadrifnu námi eða í gegnum reynslu, formlega viðurkenningu á því sem það kann. Með því verður hægt að byggja brú á milli reynslu og virðingar á vinnumarkaði.
Fagbréfin hafa þegar fest sig í sessi í ýmsum greinum. Í verslunar- og þjónustugreinum hefur VR, í samstarfi við Mími-símenntun, Verzlunarskóla Íslands og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, þróað raunfærnimatsferli sem staðfestir færni og styður við starfsþróun starfsfólks.
Í tæknigreinum hefur raunfærnimat verið nýtt til að meta hæfni einstaklinga með starfsreynslu í t.d. rafiðnaði, hljóðtækni, kvikmyndatækni og viðburðalýsingu á móti hæfnikröfum starfa. Þeir sem uppfylla viðmiðin fá útgefið fagbréf.
Hæfni fær vægi í kjarasamningum
Vorið 2024 voru ákvæði um hæfnimiðað launakerfi tekin upp í kjarasamninga, meðal annars í samningum sem Starfsgreinasamband Íslands, Efling og VR/LÍV gerðu við Samtök atvinnulífsins. Samningarnir tóku gildi 1. febrúar 2024.
Með þessu nýja kerfi er leitast við að leggja mat á störf með markvissari og gagnsærri hætti, þar sem tekið er tillit til fjölbreyttra þátta en áður í launasetningu og starfsþróun. Skýr viðmið og hlutlægt mat á hæfni eru meginmarkmið þessara breytinga sem gefur bæði starfsfólki og atvinnurekendum öflugri leiðir til að styðja við framþróun í starfi, efla starfsánægju og bæta vinnuumhverfi.
Sanngjörn framtíð byggð á raunverulegri færni
Á vinnumarkaði framtíðarinnar, þar sem fjölbreytni, sveigjanleiki og hæfni ráða för, skipta slík verkfæri sköpum. Með því að treysta á raunfærni og viðurkenna hana með Fagbréfum, höfum við í höndunum lykil að sanngjarnari, öflugri og réttlátari vinnumarkaði.
Höfundur er sviðsstjóri fræðslusviðs ASÍ.
