Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Félagslegur stuðningur dró úr áhrifum efnahagsþrenginga

Heildar-, og ráðstöfunartekjur heimilanna jukust á síðasta ári þrátt fyrir nokkuð fall í atvinnutekjum heimilanna en þróunin skýrist af auknum félagslegum tilfærslum til heimilanna, fyrst og fremst auknum greiðslum atvinnuleysistrygginga og úttekt heimila á séreignasparnaði. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Mánaðaryfirliti stefnumótunar og greiningar í júlí. Sjá nánar hér

Mest fall atvinnutekna meðal hinna tekjulægstu
Ólíkt heildartekjum drógust atvinnutekjur saman á síðasta ári. Atvinnutekjur drógust saman um 1,5% milli ára en sé tekið tillit til verðlagsþróunar var lækkunin 4,2%. Atvinnutekjur eru þær tekjur einstaklinga sem skýrast af launaðri atvinnu, þ.e. laun og starfstengd hlunnindi auk reiknaðs endurgjalds. Heildartekjur eru hins vegar allar tekjur einstaklinga og eru þá taldar með fjármagnstekjur, bætur almannatrygginga, greiðslur atvinnuleysistrygginga og fleira. Skýrist munurinn af því að við samhliða vaxandi atvinnuleysi drógust atvinnutekjur saman en aðrar tekjur, m.a. atvinnuleysisbætur, hækkuðu.

Sé litið á dreifingu tekna sést ólík þróun atvinnutekna annars vegar og heildartekna einstaklinga hins vegar. Sérstaklega með tilliti tekjudreifingar og aldurs. Þannig féllu atvinnutekjur mest í neðstu tekjutíundum, um 12% í neðstu tekjutíund og 8% í næstneðstu tekjutíund. Miðgildi atvinnutekna dróst saman um 2% en í efstu fjórum tekjutíundum jukust bæði heildartekjur og atvinnutekjur.

Sé tekjuþróun skoðuð eftir aldri sést svipuð breyting á samsetningu. Bæði heildar- og atvinnutekjur féllu hjá yngsta aldurshópnum, en þó ber að nefna að þar er í mörgum tilfellum um námsmenn í hlutastöfrum að ræða. Atvinnutekjur féllu engu að síður í öllum aldurshópum undir fimmtugu, en aukning í öðrum tekjum verður til þess að heildartekjur jukust hjá öllum aldurshópum yfir tvítugu. Hér eru tekjur skoðaðar á verðlagi hvors árs og því samdráttur atvinnutekna meiri ef tekið er tillit til verðlagsþróunar.

Úrræði drógu úr áhrifum faraldursins
Samsetning ráðstöfunartekna tók verulegum breytingum á síðasta ári. Atvinnutekjur drógust saman í öllum tekjutíundum, en þó meira í lægri enda tekjudreifingar. Þannig drógust atvinnutekjur saman um 12% að meðaltali í neðstu fimm tekjutíundum borið saman við 2% í efstu fimm. Á móti hafa aðrar tekjur heimila stóraukist og vegið upp fall sem varð í atvinnutekjum. Að meðaltali jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um 1,9% yfir alla tekjuhópa en fell þó um 11% í neðstu tekjutíund.

Aðrar tekjur eru meðal annars félagslegar tilfærslur, greiðslur atvinnuleysistrygginga en einnig hafa heimili tekið út sparnað í miklum mæli með útgreiðslum séreignarsparnaðar. Útgreiðslur atvinnuleysistrygginga námu um 70 milljörðum á síðasta ári og jukust um 50 milljarða milli ára. Auknar greiðslur atvinnuleysistrygginga útskýrðu 3,6% af hækkun ráðstöfunartekna síðasta árs. Úttekt heimila á séreignasparnaði jókst einnig verulega milli ára og nam tæplega 23 milljörðum en hún skýrir 1,5% af raunaukningu ráðstöfunartekna á síðasta ári. Ráðstöfunartekjur hækkuðu að meðaltali um 1,9%.

Þróun ráðstöfunartekna síðasta árs bendir meðal annars til þess félagslegur stuðningur hafi átt stóran þátt í að draga úr áhrifum af falli atvinnutekna á síðasta ári. Að stórum hluta er um sjálfvirka aukningu að ræða þegar atvinnuleysi eykst og greiðslur atvinnuleysistrygginga aukast. Einnig spila þó inn í ákvarðanir t.d. um lengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr 3 mánuðum í 6 . Til viðbótar var verulegur fjöldi var atvinnulaus að hluta í gegnum hlutabótaúrræði. Úttekt séreignasparnaðar hefur einnig vegið þungt í að mæta tekjufalli heimila. Hafa ber þó í huga að úttekt séreignasparnaðar felur í sér tilfutning á tekjum og verður til þess að draga úr tekjum þeirra sem úrræðið nýta síðar á ævinni.

Author

Tengdar fréttir