Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Forsetapistill – 19. júní

Í dag eru 105 ár síðan konur og eignalausir karlar fengu kosningarétt. Það er varla hægt að tala um Ísland sem lýðræðisríki fyrir þann tíma enda holur hljómur í lýðræði þar sem stórum hluta þjóðarinnar var meinað um kosningarétt. Það er ótrúlegt að til að ná þessum áfanga árið 1915 hafi þurft harða baráttu og fólkið sem stóð í framlínunni var talið öfgafullt, sérstaklega konurnar. Þó við reisum í dag minnisvarða um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og nefnum götu eftir henni þá má sjá af gömlum skrifum að hún þótti óþolandi frek og uppivöðslusöm í ákveðnum hópum. Í dag væri hún talin fánaberi íhaldsamra og borgaralegra gilda. Þannig týnist tíminn og viðhorfin með.

Í dag er það talið róttækt að vilja jöfnuð og valdeflingu allra, innan sem utan vinnumarkaðar. Við höfum að einhverju leiti undirgengist þá hugmynd að fátækt ákveðinna hópa sé lögmál, að kynbundið misrétti sé of rótgróið til að uppræta og almennum lífsgæðum sé mjög misskipt. Fólk sem talar í aðrar áttir er talið róttækt. Að jaðarsetja ákveðna hópa er veruleikinn í dag en sá veruleiki er hættulegur. Valdaleysi er hættulegt einstaklingum og samfélögum og er kveikjan að því að fólk telur eina raunhæfa kostinn til betra lífs að koma einum „sterkum leiðtoga“ til valda sem býður uppá heildarlausnir. Oft reynist þessi eini „sterki leiðtogi“ vera leiðin til glötunar. Traustið á lýðræðinu lætur undan hjá jaðarsettum hópum – þetta birtist okkur víða um heim um þessar mundir. Í ástandi hræðslu og óvissu verður það enn hættulegra að svipta fólk valdi yfir eigin lífi. Baráttu verkalýðshreyfingarinnar í meira en eina öld má kjarna í orðunum – valdefling og lífsgæði fyrir okkur öll.

Til hamingju með daginn – sækjum fram til meiri jöfnuðar og jafnréttis!
Drífa

Tengdar fréttir