Mannréttindabarátta hinsegin fólks er ein árangursríkasta barátta sem háð hefur verið síðustu áratugi. Það er ótrúlega stutt síðan hommar og lesbíur sættu aðkasti og jafnvel útilokun í okkar samfélagi. Góðu heilli hefur margt breyst síðustu tvo áratugi og ótal lagaleg og menningarleg skref stigin í átt til betri vegar. Reykjavík Pride er ein stærsta fjölskylduhátíð landsins þar sem fjölbreytileikanum er fagnað og fordómum úthýst.
Það sama gildir um vinnumarkaðinn. Á síðasta ári voru samþykkt lög sem fjalla sérstaklega um jafna meðferð óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Það er sem sagt bannað að mismuna fólki á vinnumarkaði sem er hinsegin – eðlilega.
En lög eru eitt og menning er annað. Þó að fáir kippi sér upp við það þegar samstarfsfélagi mætir með maka af sama kyni í jólahlaðborðið þykir það enn töluvert mál í samfélaginu að fara í kynleiðréttingu og skipta um fornafn. Barátta transfólks afhjúpar þannig hið rótgróna kynjaða kerfi sem við búum við, hversu kynjað tungumálið okkar er og allar upplýsingar sem við veitum um okkur. Barátta transfólks og alls hinsegin fólks er nátengd annarri jafnréttisbaráttu.
Réttindabarátta hinsegin fólks er þannig orðinn órjúfanlegur hluti af framsæknum baráttumálum og á þingi Alþjóða vinnumálastofnunarinnar í sumar var LGBT+ skilgreint í umræðunni sem hópur sem á undir högg að sækja. Þetta var mjög áberandi í umræðum um nýja samþykkt gegn ofbeldi og áreitni í vinnuumhverfinu gagnvart viðkvæmum hópum. Alþýðusambandið mun leggja áherslu á að þessi samþykkt verði fullgilt hér á landi og í því felist að hinsegin fólk sé skilgreint sem minnihlutahópur sem þurfi enn sem komið er að njóta verndar og athygli þegar gætt er jafnræðis á vinnumarkaði.
Sem hagsmunasamtök vinnandi fólks eru stéttarfélög tilbúin að taka upp hanskann fyrir félagsmenn sem eru beittir órétti og heildarsamtök vinnandi fólks á almennum vinnumarkaði styður heilshugar hinsegin baráttu. Það er ekki í lagi að hinsegin fólk telji sig þurfa að leyna kynhneigð sinni eða kynvitund fyrir vinnufélögum eins og vísbendingar eru um. Það er því enn verk að vinna til að breyta hugsanahætti og menningu til hins betra. Mætum á Reykjavík Pride, verum stolt af árangrinum en gerum betur!
Drífa Snædal,
forseti ASÍ