Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Gríðarlegur munur á matvöruverði á landsbyggðinni

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði á þriðjudaginn matvöruverð í 15 minni matvöruverslunum á landsbyggðinni. Í ljós kom að í um helmingi tilfella var yfir 80% munur á hæsta og lægsta verði á þeim vörum sem verð var kannað á. Á 56 vörutegundum af þeim 103 sem kannaðar voru, var 60-140% munur á hæsta og lægsta verði og yfir 140% verðmunur á 12 vörutegundum. Mikill verðmunur var á hæsta og lægsta verði í öllum vöruflokkum. Á mörgum þeim stöðum á landinu sem verðkönnunin fór fram eru langar vegalengdir í næstu verslun og reiða margir heimamenn sig því á þær.

Sem dæmi um mikinn verðmun á milli verslana í könnuninni má nefna að 106% eða 1.373 kr. munur var á hæsta og lægsta kílóverði af brauðosti og 103% eða 1.183 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði af Cheeriosi. Á ungnautakjöti var 100% eða 1.597 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði, á smjöri var um 50% verðmunur og um 60-70% munur var á verði á mismunandi brauðtegundum. Þá var mikill munur á hæsta og lægsta kílóverði á þvottaefni eða 156% og 80% á kaffipúðum.

Sem dæmi um verðmun innan vöruflokka var í flestum tilfellum um 80-100% munur á hæsta og lægsta verði á kjöti og fiski, yfirleitt um eða yfir 100% verðmunur á dósamat og þurrvöru og oft um 80-100% munur á snakki og gosi og annarri drykkjarvöru. Þrátt fyrir mikinn verðmun í öllum vöruflokkum var munurinn á verði á grænmeti hvað mestur, oft 2-300%. Miðað við þennan mikla verðmun í öllum vöruflokkum er ljóst að verðlag í verslununum getur haft mikil áhrif á heimili sem reiða sig á verslanirnar.

Vöruúrvalið í verslunum var mjög misjafnt. Mest var úrvalið í Skagfirðingabúð en þar fengust 94 vörur af 103 en minnst var úrvalið í Versluninni Ásbyrgi þar sem einungis 24 vörur fengust. Í nokkrum verslunum var mikið um að vörur væru ekki verðmerktar.
Í verðtöflunni hér að neðan má sjá verð á öllum vörum í könnuninni. Verðtaflan er gagnvirk. Ef ýtt er á nafnið á vöruflokknum kemur fellilisti þar sem skipta má um vöruflokk. Ef ýtt er á vöruheitin raðast verslanirnar eftir því hver er með hæsta og lægsta verðið. E merkir að varan hafi ekki verið til en em merkir að varan hafi ekki verið verðmerkt.

Hitamynd af verðtöflu

Þrjár verslanir neituðu þátttöku í könnuninni, Melabúðin, Kassinn Ólafsvík og Kostur í Njarðvík. Við samanburð á milli verslana ber að athuga að hér er um mjög margar mismunandi verslanir að ræða, allt frá litlum verslunum sem eru í eigu einstaklinga til verslana sem eru hluti af stærri verslanakeðjum.

Um könnunina:
Í könnuninni er einungis um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Í könnuninni var hilluverð á 103 vöru skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Kjörbúðinni Garði, Krambúðinni Laugardal, Kr. Þorlákshöfn, Kjarval Hellu, Fjölval Patreksfirði, Hjá Jóhönnu Tálknafirði, Skerjakollu Kópaskeri, Urð Raufarhöfn, Versluninni Ásbyrgi, Dalakofanum Laugum, Hlíðakaup Sauðárkróki, Skagfirðingabúð Sauðárkróki (KS), Jónsabúð Grenivík, Kauptúni Vopnafirði, Hraðbúðinni Hellissandi, Kassanum Ólafsvík, Kosti Reykjanesbæ og Melabúðinni.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Author

Tengdar fréttir