Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar má greina skýran vilja til þess að ráðast í aðgerðir sem stuðla að heilbrigðum og sanngjörnum vinnumarkaði, öllum til hagsbóta, sbr. punktur 5: Ný ríkisstjórn hyggst taka fast á félagslegum undirboðum, m.a. með því að herða eftirlit með starfsmannaleigum, innleiða keðjuábyrgð í stærri verklegum framkvæmdum, efla heimildir til vinnustaðaeftirlits og lögfesta skýrari refsiákvæði vegna vinnumansals.
Almennt verða réttindi á íslenskum vinnumarkaði til með kjarasamningum og hlutverk stjórnvalda er að sjá til þess að umgjörðin sé til staðar svo að hlutirnir geti vaxið og dafnað með eðlilegum hætti. ASÍ hefur á undanförnum misserum kallað eftir aukinni ábyrgð af hálfu stjórnvalda hvað þetta varðar. Örar breytingar á efnahagslífinu sem og breyttar aðstæður í heiminum hafa skapað nýjar áskoranir fyrir íslenskan vinnumarkað og undirrituð fagna því sérstaklega ef ný ríkisstjórn hefur metnað og velvilja í þessum efnum. Eðli málsins samkvæmt er engin töfralausn til við þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir en verkefnið er viðvarandi og kallar á stöðuga skoðun og eftirlit með því að mál þróist með eðlilegum hætti.
Undirrituð hafa í störfum sínum hjá ASÍ góða og haldbæra yfirsýn yfir það sem betur má fara. Þing ASÍ og miðstjórn ASÍ hafa jafnframt í gegnum tíðina látið skoðun sína og tillögur í ljós. Markmiðið með skrifum þessum er að taka saman og bera á borð fyrir stjórnvöld og samfélagið allt neðangreindar níu tillögur sem undirrituð telja að geti skipt sköpum í því mikilvæga markmiði að skapa hér heilbrigðari vinnumarkað, launafólki, fyrirtækjum og samfélaginu öllu til hagsbóta:
1. Keðjuábyrgð í öllum stærri byggingarframkvæmdum
Í of langan tíma hefur það viðgengist að langar og flóknar keðjur undirverktaka eru notaðar til að misfara með kaup og kjör fólks í byggingabransanum. Að mati undirritaðra er óeðlilegt að verktakar geti komið sér undan ábyrgð með því að búa til verktakasamband, og ekki síst ef um gerviverktakasamband er að ræða. Skilvirkar og skýrar reglur um keðjuábyrgð í verklegum framkvæmdum býr einnig til sanngjarnan samkeppnisgrundvöll á byggingamarkaði; fyrirtækjum, launafólki og efnahagslífinu til bóta.
2. Févíti við launaþjófnaði
Á íslenskum vinnumarkaði eru í gildi kjarasamningar sem kveða á um lágmarkskjör í viðeigandi starfsgrein. Þessi réttindi eru sjálfsögð og í gegnum tíðina hefur vinnandi fólk barist fyrir þeim og lagt mikið í sölurnar til að vinna að réttindum komandi kynslóða. Því miður er það of algengt að atvinnurekendur gangi um þessi réttindi af léttúð á þann hátt að kaup og kjör eru ekki virt. Undirrituð telja nauðsynlegt að tekin verði upp einföld og aðgengileg regla sem kveði á um það að vangreiðsla leiði til þess að launafólk eigi rétt á álagi í formi svokallaðs févítis. Slíkt þekkist í nágrannalöndunum og hafa þær óumdeild varnaðaráhrif og draga úr launaþjófnaði.
3. Fullfjármögnuð og tímasett aðgerðaráætlun í mansalsmálum
Mansal á vinnumarkaði er alvarlegasta mynd réttindabrota gagnvart launafólki og brýtur gegn mannlegri reisn og grundvallarmannréttinum. Það er orðið mjög tímabært að stjórnvöld móti sér aðgerðaáætlun í mansalsmálum og nauðsynlegt að hún sé bæði fullfjármögnuð og tímasett. Hafa ætti í huga ólík einkenni, birtingarmyndir og afleiðingar vinnumansals annars vegar og vændismansals hins vegar og skoða að skipta jafnvel aðgerðaáætlun upp eftir tegund misneytingar.
4. Endurskoðun atvinnu-og dvalarleyfa útlendinga utan EES með tilliti til hættunnar á misneytingu og mansali
Mikilvægt er að styrkja mansalsleyfi útlendingalaga þannig að það sé undanskilið kröfu um sérstakt atvinnuleyfi, telji upp í rétt til ótímabundinnar búsetu og að því fylgi réttur til fjölskyldusameiningar. Þá telja undirrituð að skoða ætti alvarlega að innleiða sérstakt dvalar- og atvinnuleyfi fyrir þolendur misneytingar til að ná utan um sérstaklega alvarleg brot á vinnumarkaði, sem ná þó ekki þröskuldi mansals, þar sem berskjöldun launamanns er notuð í þeim tilgangi að hagnýta hann. Í öllum breytingum á atvinnu- og dvalarleyfiskerfum ætti að horfa til þess að draga úr hættu á misneytingu enda eru borgarar landa utan EES sérstaklega berskjaldaðir fyrir misneytingu og mansali.
5. Endurskoðað regluverk um lögverndaðar iðngreinar
Styrkja þarf raunverulega vernd á lögvernduðum iðngreinum. Of algengt er að fólk án tilskilinna iðnréttinda vinni slík störf og það er ein birtingarmynd félagslegra undirboða. Metnaðarlausir atvinnurekendur freistast til þess að spara sér launakostnað en sá kostnaður endar oftar en ekki í fangi kaupanda vöru og þjónustu sem ekki er faglega unnin. Raunverulegt eftirlit þarf að vera með réttri framkvæmd iðnaðarlaga og tengds regluverks en um of langt skeið hefur skort á metnað og vilja stjórnmálamanna (fjárveitingarvalds) í þeim efnum.
6. Hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi í opinberum innkaupum
Ríki og sveitarfélög verða að ganga á undan með góðu fordæmi og setja sér metnaðarfullar innkaupastefnur sem tryggja félagsleg og vinnuréttarleg réttindi. Samhliða því er nauðsynlegt að ríkið uppfæri og tryggi útvistunarstefnu sína sem er frá árinu 2006 og að sveitarfélög setji sér slíkar stefnur þar sem slíkt er enn ógert. Opinberir aðilar geta ekki haldið áfram í blindni að auka útvistun án þess að slíku sé settur rammi sem tryggi hér heilbrigðan vinnumarkað sem virðir mannréttindi. Ólíðandi er með öllu að á opinberum verkstöðum og að í þjónustu hins opinbera viðgangist launaþjófnaður. Endurskoða þarf lög um opinber innkaup og tengdar réttarheimildir í þeim tilgangi að styrkja ríki og sveitarfélög í þessari vegferð. Fyrir utan mikilvægt fordæmisgildi slíkra reglna má jafnframt benda á það augljósa í þessu samhengi sem er óumdeildur hagur ríkis og sveitarfélaga fyrir því að hér á landi fái heiðarleg fyrirtæki að blómstra laus við þá stöðu að þurfa að keppa við launaþjófa.
7. Lög um starfsmannaleigur endurskoðuð
Ekkert í umgjörð íslensks vinnumarkaðar kallar á að hér á landi séu starfræktar fjöldi starfsmannaleiga. Of algengt er að á byggingastöðum sé að finna fjölda af starfsmannaleigustarfsmönnum sem með réttu og í eðlilegu árferði ættu að vera í beinu ráðningarsambandi við umrædd byggingafyrirtæki. Það þarf að setja skýrari ramma um þann hámarkstíma sem notendafyrirtæki getur notast við starfsmannaleiguþjónustu án þess að ráða hreinlega til sín fólkið í beina ráðningu.
8. Sterkar eftirlitsstofnanir
Undirrituð telja ljóst að efla þarf eftirlit á vinnumarkaði svo um munar til þess að koma með skilvirkari og betri hætti í veg fyrir brot og misneytingu hverskonar eða uppræta slíkt svo fljótt sem auðið er. Brýnt er að þeir eftirlitsaðilar sem sinna eftirliti á íslenskum vinnumarkaði séu styrktir þannig að þeir búi yfir nægu fjármagni, hæfu og sérhæfðu starfsfólki, auk tíma og svigrúms til að sinna mikilvægu hlutverki sínu. Þá þarf, til þess að eftirlit skili raunverulegum árangri, að tryggja að mismunandi eftirlitskerfum sé kleift að tala saman og deila upplýsingum til þess að ekkert falli á milli. Án þessa er erfitt, og jafnvel ómögulegt að viðhafa virkt eftirlit á vinnumarkaði.
9. Stöðva þarf undirmönnun
Undirrituð hvetja ríki og sveitarfélög til að tryggja nauðsynlegt fjármagn til ríkisrekinna stofnana, auk annarra stofnana sem almannafé ber að tryggja svo unnt sé að byggja upp öfluga og vel mannaða vinnustaði. Án nægilegrar mönnunar er hvorki hægt að tryggja gæði þjónustu né öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Sérstaklega þarf að huga að þeim starfsstéttum þar sem konur eru í meirihluta, en þar hefur álag vegna undirmönnunar lengi verið viðvarandi. Það hefur alvarlegar afleiðingar – bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu starfsmanna og getur aukið hættur í starfsumhverfi. Trygg mönnun er lykilatriði til að skapa heilbrigt starfsumhverfi og trausta þjónustu við almenning. Fjármögnun þarf að endurspegla það mikilvægi sem þessar stéttir hafa fyrir samfélagið í heild.
Lögfræði- og vinnumarkaðssvið ASÍ
Halldór Oddsson
Saga Kjartansdóttir
Kristjana Fenger
Karen Ósk Nielsen Björnsdóttir
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir