Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Hlutavinnufólki mismunað 

Yfirvinnu hlutavinnufólks (aukavinnu) ber að greiða með sömu álögum og yfirvinnu þeirra sem eru í fullu starfi. Annað felur í sér mismunun og brot gegn annars vegar tilskipun 97/81/EC um hlutastörf og hins vegar gegn tilskipun 2006/54/EC um jöfn tækifæri og jafna meðferð karla og kvenna sé hægt að sína fram á að brotið hitti konur frekar fyrir þar sem hærra hlutfall þeirra sinnir hlutastörfum en karlar. Þetta er niðurstaða Evrópudómstólsins frá 29.7 s.l. í málunum C-184/22 og C-185/22.  Tilskipanir þessar hafa verið leiddar í lög hér á landi með lögum nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum og lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. 

Samkvæmt íslenskum kjarasamningum telst yfirvinna almennt vera sú vinna sem unnin er utan tilskilins daglegs 8 klst. vinnutíma á dagvinnutímabili virkra daga, eins og það er skilgreint í viðkomandi kjarasamningi, frá mánudegi til föstudags. Nokkuð hefðbundin ákvæði kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hljóða að jafnaði eitthvað á þessa vegu: „Samningsbundin yfirvinna hefst þegar lokið er umsaminni dagvinnu, 7 klst. og 25 mín. virkum vinnustundum, á tímabilinu kl. 07:00 til 17:00, mánudaga – föstudaga.“ Eða „Vinna utan dagvinnutímabils greiðist með tímakaupi sem nemur 0,8235% af mánaðar- launum fyrir dagvinnu upp að 167,94 klst. vinnu hvern mánuð (38 klst. og 45 mínútur að jafnaði á viku). Vinna umfram 167,94 klst. greiðist með tímakaupi sem nemur 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.“ svo tekin séu tvö dæmi.

Þetta þýðir t.d. að þótt skrifstofumaður hefji störf eftir hádegi, og hafi þannig einungis unnið 4 klst. kl. 17.00 þegar dagvinnutímabili lýkur samkvæmt kjarasamningi, hefst yfirvinna hjá honum kl. 17.00. Hjá vaktavinnufólki telst yfirvinna hins vegar vera sú vinna sem unnin er umfram umsamdar vaktir starfsmanns og hjá fólki í 100% starfshlutfalli telst vinna umfram starfshlutfall yfirvinna óháð hvort unnið er á dagvinnutímabili eða ekki. Það telst hins vegar almennt ekki yfirvinna, vinni starfsmaður sem ráðinn er til hlutavinnu, aukavinnu umfram starfshlutfall sitt, sé sú aukavinna unnin á dagvinnutímabili. Sé hún hins vegar unnin utan dagvinnutímabils telst hún vera yfirvinna. Í kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði má þó finna dæmi um að vinna hlutavinnufólks, sem unnin er umfram umsamdan vinnutíma, skuli teljast yfirvinna þótt á dagvinnutímabili sé. 

Samkvæmt þessum ákvæðum og öðrum sambærilegum ber hlutavinnufólk skv. dómi Evrópudómstólsins skertan hlut frá borði samanborið við fólk í fullu starfi. Jafnframt er vitað að mun fleiri konur eru í hlutastörfum en karlar hér á landi. Augljóst er að bregðast verður við dómi Evrópudómstólsins hér á landi, bæði með breytingum á lögum og kjarasamningum. 

Magnús M. Norðdahl hrl., lögfræðingur hjá ASÍ.  

Tengdar fréttir