Alþýðusamband Íslands, BSRB og Öryrkjabandalag Íslands boða til málþings um jafnrétti í heilbrigðisþjónustu; hætturnar við arðvæðingu og einkavæðingu í heilbrigðisrekstri og leiðir að bættu rekstrarumhverfi í þágu samfélagsins.
Málþingið er haldið í tilefni útgáfu bókarinnar Jafnrétti í heilbrigðisþjónustu – aðgerðaáætlun sem er íslensk þýðing á riti eftir tvo sænska sérfræðinga, þau Göran Dahlgren og Lisu Pelling. Í bókinni gera þau grein fyrir hörmulegri reynslu Svía af arðvæðingu velferðarþjónustunnar; umönnun, skólum og heilbrigðisþjónustu og leggja fram áætlun um hvernig snúa ber af þeirri glötunarbraut.
Bókina má nálgast í PDF-formi hér.
Málþingið fer fram í Eddu, Húsi íslenskunnar, fimmtudaginn 12. september og hefst klukkan 14. Þau Göran Dahlgren og Lisa Pelling munu flytja erindi og Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands, mun fara yfir reynsluna frá Svíþjóð í íslensku samhengi.
Fundarstjóri er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Dagskráin er svohljóðandi:
13:30 – Húsið opnar
14:00 – Sonja Ýr Þorbergsdóttir (BSRB) – Upphafsorð
14:10 – Göran Dahlgren – When the Swedish Health care system became a market – driving forces, effects and alternatives
14:55 – Lisa Pelling – Trade union strategies and responses towards marketisation of health care services – perspectives from Sweden
15:15 – Rúnar Vilhjálmsson – Reynslan frá Svíþjóð í íslensku samhengi
15:30 – Léttar veitingar
Göran Dahlgren er sænskur sérfræðingur í lýðheilsumálum og handhafi lýðheilsuverðlauna Norðurlandaráðs árið 2003. Síðan á níunda áratugnum hefur Göran verið áhrifamaður á alþjóðavettvangi á sviði heilbrigðis- og lýðheilsumála. Göran er fyrrum gestaprófessor við Háskólann í Liverpool og var yfirmaður heilbrigðissviðs sænska félagsmálaráðuneytisins og Lýðheilsuráðs sænsku lýðheilsustofnunarinnar, auk þess að hafa starfað á alþjóðavettvangi fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO). Með útgáfu bókarinnar „Hjúkrunarmarkaður framtíðarinnar – hverjir vinna og hverjir tapa?“ spáði Göran fyrir um markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins sem raungerst hefur í Svíþjóð á síðustu 30 árum.
Lisa Pelling er sænskur stjórnmálafræðingur og yfirmaður hugveitunnar Arena Idé, sem styrkt er af verkalýðsfélögum. Lisa er með doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Háskólanum í Vínarborg. Lisa hefur reglulega lagt sitt af mörkum við framsækna dagblaðið Dagens Arena og Social Europe, auk þess að hafa starfað sem pólitískur ráðgjafi í sænska utanríkisráðuneytinu. Lisa var framkvæmdastjóri International Union of Socialist Youth á árunum 1997–2001 og er formaður stjórnar Rannsóknarstofnunar um fólksflutninga, þjóðerni og samfélag (REMESO) við Linköping háskóla.
Rúnar Vilhjálmsson er prófessor í félagsfræði við hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands. Rúnar er með doktorsgráðu í félagsfræði frá Wisconsinháskóla í Madison í Bandaríkjunum þar sem hann sérhæfði sig í félagsfræði með áherslu á heilsuvandamál og heilbrigðisþjónustu ásamt heilbrigðisfræði með áherslu á stjórnun heilbrigðisstofnana og faraldsfræði. Rúnar hefur árum saman rannsakað skipulag heilbrigðisþjónustu, afstöðu almennings til reksturs og fjármögnunar heilbrigðisþjónustunnar og aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustunni.