Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Mikilvægt að bregðast strax við réttindabrotum

Ef þú telur atvinnurekanda vera brjóta á þér er brýnt að bregðast strax við og hafa samband við stéttarfélagið þitt. Undanfarið hafa fallið dómar á svokölluðu tómlæti. Ábyrgðin á að greitt sé samkvæmt kjara- og ráðningasamningum er þannig sett yfir á félagsmenn og þeim ætlað að átta sig nógu snemma og reisa kröfur strax.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sendi formönnum stéttarfélaga innan ASÍ bréf í gær þar sem hún vekur athygli á þessari þróun mála. Þar segir hún m.a.:

„Þessir dómar þýða breytt umhverfi fyrir félagsmenn og störf stéttarfélaga þar sem iðulega hefur verið reynt til þrautar að semja við atvinnurekendur áður en til formlegra málaferla kemur. Stefna ASÍ hefur verið að reyna að vernda það umhverfi sem við höfum starfað í og reyna að ná fram sáttum við Samtök atvinnulífsins um tillögu að lagabreytingum þannig að kröfur félagsmanna falli ekki á tómlæti, að félagsmenn og stéttarfélög hafi svigrúm til að innheimta vangoldin laun áður en til málaferla komi. Við höfum átt í viðræðum við SA um tillögu að slíkum lagabreytingum en nú er ljóst að þær tilraunir hafa borið lítinn árangur og takmarkaður vilji hjá atvinnurekendum að styrkja stöðu launafólks sem brotið er á.“

Forseti ASÍ segir að verkalýðshreyfingunni sé nauðugur sá kostur að hvetja stéttarfélög til að reisa allar kröfur um vangoldin laun strax til að vernda félagsmenn sína og tryggja þá fyrir tjóni. Þetta sé best gert með því að styrkja ráðgjöf og lögfræðisþjónustu félaganna. Drífa Snædal endar bréf sitt til formannanna á þessum nótum.

„Kæru félagar. Dómstólar hafa gert okkur erfiðara fyrir að tryggja réttindi okkar félagsmanna og það er ekki óskastaða okkar að málin fari í þennan farveg. Við höfum viljað hafa svigrúm til að leita sátta og veita fyrirtækjum tækifæri til að leiðrétta vangoldin laun. Þess vegna reyndum við til þrautar að girða fyrir tómlætisáhrif í samtali og samstarfi við atvinnurekendur. Þeir eru ekki tilbúnir í þessa vegferð með okkur og bera því ábyrgð á harðari viðbrögðum verkalýðshreyfingarinnar og breyttu umhverfi í deilumálum.
Verndum okkar fólk, bregðumst við strax af hörku ef brotið er á kjara- eða ráðningasamningum, það er lítið svigrúm til tafa eða viðræðna.“

Author

Tengdar fréttir