Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Mótmæla hækkun vaxta í Evrópu

Áður óþekkt hækkun stýrivaxta mun hafa bein og skaðleg áhrif á launafólk, að sögn framkvæmdastjóra Evrópusamtaka verkalýðsfélaga (ETUC).

Seðlabanki Evrópu hefur hækkað stýrivexti um 0,5 prósentustig í 2,5%. Frekari hækkanir eru boðaðar.

Hækkanir þessar koma til þrátt fyrir að dregið hafi úr verðbólgu síðustu þrjá mánuði og hækkunin á evrusvæðinu í janúar hafi verið minni en spáð hafði verið.

Esther Lynch, framkvæmdastjóri ETUC, andmælir vaxtahækkunum evrópska seðlabankans og segir þær ekki taka á undirliggjandi áhrifaþáttum verðbólgu sem séu allir á framboðshlið hagkerfisins. „Þetta mun auka á erfiðleika launafólks þar sem láglaunafólk eyðir stærri hluta tekna sinna til kaupa á mat og orku en aðrir hópar,“ segir hún.

Nálgun bankans standist ekki skoðun. Hækkun vaxta auki líkur á efnahagssamdrætti sem muni koma þungt niður á heimilum og fyrirtækjum á evrusvæðinu. Hækkun vaxta auki hagnað banka en dragi úr getu opinberra kerfa til að létta afkomu verkafólks og bótaþega og nauðsynlegum fjárfestingum ríkissjóða í almannaþjónustu og græna hagkerfinu.

Lynch bætir við að leigjendur muni einnig finna fyrir þessum vaxtahækkunum þar sem aukinn kostnaður við húsnæðiskaup verði sóttur til þeirra á sama tíma og kaupmáttur ráðstöfunartekna fari minnkandi.

Author

Tengdar fréttir