Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ójöfnuður jókst í fyrra

Á síðasta ári jókst ójöfnuður í hagkerfinu sem endurspeglast í hækkun Gini stuðulsins um eitt prósentustig. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju mánaðaryfirliti ASÍ. Þar má einnig lesa um hægari gang á húsnæðismarkaði og um mikla fjölgun lausra starfa á öðrum ársfjórðungi.

Mánaðaryfirlit

Veruleg aukning fjármagnstekna á síðasta ári
Stærsta breyting á tekjum heimila í fyrra var aukning fjármagnstekna. Sú aukning var nær einvörðungu hjá þeim allra tekjuhæstu. Hjá tekjuhæstu 10% heimila hækkuðu ráðstöfunartekjur að meðaltali um ríflega 10%. Þá hækkun má einkum rekja til hækkun fjármagnstekna. Tekjuhækkun í öðrum tekjutíundum var mun minni.

Tekjuójöfnuður jókst 2021
Í alþjóðlegum samanburði er tekjuskipting jöfn á Íslandi og er einna jöfnust meðal OECD ríkja samkvæmt mælikvörðum stofnunarinnar. Hinir ólíku mælivarðar sýna að tekjudreifing á Ísland er á pari við eða ívið jafnari en á Norðurlöndunum. Þó að launadreifing á vinnumarkaði hér á landi sé heldur ójafnari en á hinum Norðurlöndunum, þá vegur á móti að atvinnuþátttaka er hærri hér á landi. Eftir því sem fleiri eru á vinnumarkaði þeim jafnari er tekjuskipting almennt.

Til að meta umfang á tekjujöfnuði er Gini-mælikvarðinn oft notaður. Hann dregur saman í eina tölu umfang ójafnaðar í tekjuskiptingu þjóðar. Stuðullinn er á bilinu 0 og 1. Eftir því sem gildið er hærra er umfang ójafnaðar meira. Anthony Atkinson, sérfræðingur í tekjuskiptingu, hefur sett fram það viðmið að hækkun Gini-stuðuls um 3 eða fleiri Gini stig, þ.e. hækkun um 0,03 eða meira, geti talist markverð breyting.

Myndin að ofan sýnir þróun Gini-stuðuls á Íslandi, bæði á tekjum fyrir og eftir skatt. Tekjuskipting varð ójafnari frá miðbiki 10. áratugar síðustu aldar. Það gerðist einnig á Norðurlöndunum. Á árunum fyrir fjármálahrun hækkaði Gini-stuðullinn hratt en lækkaði svo aftur hratt eftir fjármálahrun. Sé litið fram hjá þessari sveiflu, jókst Gini-stuðullinn um 6 stig frá 1993 til 2010. Af þeirri aukningu má rekja um ¾ til breyttrar tekjudreifingar fyrir skatt. Annað skýrist með því að jöfnunaráhrif skattkerfisins minnkuðu. Íslenska skattkerfið er með þeim hætti að skattbyrði (skattgreiðslur sem hlutfall af tekjum) fari stigvaxandi með hækkandi tekjum. Það jafnar tekjuskiptinguna. Árið 1993 var ójöfnuður eftir skatt um 5,3 Gini-stigum lægri samanborið við tekjur fyrir skatt. Árið 2010 var munurinn 3,6 Gini-stig.

Jöfnunaráhrif skattkerfa eru meiri á Norðurlundunum en á Íslandi. Frá 2010 hélst tekjuskiptingin nokkuð óbreytt í tíu ár. Þó með þeim hætti að tekjuskipting fyrir skatt varð lítillega jafnari á meðan að jöfnunaráhrif skattkerfisins minnkuðu. Á heildina litið breyttist því tekjuskipting lítið. Breytt jöfnunaráhrif skattkerfisins má meðal annars skýra með því að skattbyrði þeirra tekjulægri jókst vegna þess að persónuafsláttur hækkaði hlutfallslega minna en laun. Því til viðbótar leiddi afnám auðlegðarskatts til þess að jöfnunaráhrif minnkuðu.

Author

Tengdar fréttir