Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Rafbækur oftast ódýrari en prentaðar bækur

Í flestum tilfellum er ódýrara fyrir háskólanema að kaupa rafbækur en prentaðar bækur samkvæmt nýjum verðsamanburði verðlagseftirlits ASÍ á verði á prentuðum námsbókum í kiljuformi og námsbókum á rafbókarformi. Þá var oftast ódýrara að kaupa bækur í kiljuformi af Amazon og fá sendar til landsins en að kaupa þær af Bóksölu stúdenta.
Háskólanemar geta sparað sér töluverðar fjárhæðir með því að leita lægstu verða en í 5 tilfellum af 9 var um 30-40% verðmunur á hæsta og lægsta verði, í einu tilfelli var 69% munur, í einu 96% verðmunur en mesti verðmunurinn á bók var 100%.

Stundum ódýrara að panta bækur frá Amazon en að kaupa þær hjá Bóksölunni
Námsbækur fyrir háskólanema eru í mörgum tilfellum nokkuð dýrar og slagar verðið á sumum þeirra upp í 20.000 krónur. Lítil samkeppni er á bókamarkaði fyrir háskólanema hér á landi en einungis tveir aðilar gefa sig út fyrir að selja slíkar bækur, Bóksala stúdenta og Heimkaup.is. Fleiri leiðir standa nemendum þó til boða eins og að panta bækur af Amazon eða kaupa þær af öðrum nemendum í hinum ýmsu skiptibókahópum á Facebook. Misjafnt er á hvaða formi bækurnar eru en Heimkaup býður til að mynda eingöngu upp á rafbækur á meðan Bóksala stúdenta býður bæði upp á rafbækur og prentaðar bækur. Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á nokkrum námsbókum fyrir háskólanema, völdum af handahófi. Verð á rafbókum og prentuðum bókum í kiljuformi var borið saman en þeir aðilar sem samanburðurinn nær til er Bóksala stúdenta, Heimkaup.is og Amazon.com.
Sitt sýnist hverjum um hvort þægilegra er að nota hefðbundnar prentaðar bækur eða rafbækur en ljóst er að í mörgum tilfellum má spara sér pening með því að kaupa rafbók í stað hefðbundinnar bókar. Þannig voru rafbækur frá Heimkaup ódýrastar í 6 af 9 tilvikum en kilja, pöntuð af Amazon og send til Íslands ódýrust í tveimur tilvikum af 9. Hæsta verðið var oftast að finna á kiljum hjá Bóksölu stúdenta eða í 7 af 9 tilvikum.

Verðsamanburður í töflu

Allt að 100% verðmunur á rafbók og kilju
Mesti munur á hæsta og lægsta verði var á bókinni Mathematics for Economics and Business e. Ian Jacques, eða 100%. Lægsta verðið var á Rafbók hjá Heimkaup, 5.490 kr. en það hæsta á kilju hjá Bóksölunni, 10.995 kr. Munurinn á hæsta og lægsta verði á bókinni Economics e. Mankiw og Taylor (6. útgáfa) var 69% en lægsta verðið var á kilju frá Amazon, 7.699 kr. en það hæsta á kilju frá Bóksölu stúdenta, 12.995 kr. Þá var 42% munur á hæsta og lægsta verði á bókinni Molecular biology of the cell e. Bruce Alberts (6. útgáfa). Lægsta verðið var á rafbók hjá Heimkaup, 11.990 kr. en það hæsta á kilju hjá Bóksölu stúdenta, 16.995 kr.
Nokkrar líkur eru á að í mörgum tilfellum sé ódýrara að kaupa notaða bók af samnemendum í gegnum skiptibókahópa á Facebook í stað þess að kaupa bækurnar af þeim fyrirtækjum sem úttektin nær til. Óvísindaleg athugun fulltrúa verðlagseftirlitsins á Facebook leiddi það í ljós. Í mörgum tifellum birta nemendur hins vegar ekki verð opinberlega heldur óska eftir tilboðum í skilaboðum. Framboð af slíkum bókum kann einnig að vera lítið og stopult og geta nemendur því ekki treyst á þá leið til að kaupa bækur. Þá má oft finna eldri útgáfur af námsbókum hjá söluaðlium sem kosta oft minna en nýjustu útgáfur.

Verð var kannað hjá eftirtöldum aðilum: Bóksölu stúdenta, Heimkaup.is og Amazon.com.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Viðkomandi úttekt er ekki tæmandi og kann að vera að hægt sé að finna dæmi um lægra verð á þeim bókum úttektin nær yfir. Uppgefin verð á bókum frá Amazon eru með sendingarkostnaði til landsins, virðisaukaskatti og póstgjöldum.

Author

Tengdar fréttir