Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Richard Trumka látinn

Richard Trumka, þekktasti leiðtogi verkalýðshreyfingarinnar í Bandaríkjunum síðustu áratugina, lést fimmtudaginn 5. ágúst, 72 ára að aldri. Með honum er genginn mikilhæfur baráttumaður fyrir kjörum og réttindum launafólks, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur um heim allan.  

Trumka var kjörinn forseti  AFL-CIO, stærsta verkalýðssambands Bandaríkjanna, árið 2009 og gegndi því embætti er hann lést. Hann var jafnframt forseti TUAC, ráðgjafarnefndar verkalýðshreyfingarinnar, gagnvart Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD).  

Trumka fæddist 24. Júlí 1949 í bænum Nemacolin í Pennsylvaníu. Foreldrar hans voru af pólskum og ítölskum ættum.  Faðir hans, Frank, var kolanámumaður og það var afi hans líka. Richard tók upp sama starfa tæplega tvítugur að aldri. Samhliða vinnu lauk hann BS-gráðu frá ríkisháskólanum í Pennsylvaníu árið 1971 og þremur árum síðar doktorsprófi í lögum frá Villanova-háskóla.  

Trumka hóf störf sem lögfræðingur Samtaka námumanna í Ameríku (e. United Mine Workers of America) árið 1974. Hann hlaut skjótan frama, var kjörinn í framkvæmdastjórn 1981 og forseti samtakanna ári síðar, aðeins 33 ára að aldri. 

Sögulegt verkfall 

Trumka vakti þjóðarathygli árið 1989 er hann fór fyrir níu mánaða verkfalli verkamanna sem störfuðu hjá Pittson-kolanámunum. Eitt helsta átakamálið varðaði greiðslur Pittson í sjúkra- og eftirlaunasjóð námumanna sem komið hafði verið á fót 1950.  Verkfallsmenn fóru með sigur af hólmi í deilunni og var hann hafður til marks um gildi samstöðu verkafólks gagnvart viðleitni atvinnurekenda til að fækka starfsfólki og rýra kjörin. Trumka lagði jafnan áherslu á að mótmæli og aðgerðir verkamanna færu friðsamlega fram.  

Bandarískir námumenn fóru einnig í verkfall árið 1993 vegna samningsbrota Peabody-kolafyrirtækisins og var Trumka þar í broddi fylkingar.  

Stuðningur við mannréttindabaráttu 

Trumka var snemma áhugasamur um kjör vinnandi fólks víða um heim og stofnaði t.a.m. samtök bandarískra námumanna til stuðnings starfsbræðrum í Suður-Afríku er þeir börðust gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnu (apartheit) hvíta minnihlutans sem þá fór með öll völd í landinu. Fyrir þetta og annað framlag sitt til baráttu gegn mannréttindabrotum var hann sæmdur virtum  mannréttindaverðlaunum sem kennd eru við Orlando Letelier og Ronni Moffit, sem flugumenn herforingjastjórnarinnar í Chile myrtu í Bandaríkjunum árið 1976.  

Trumka var kjörinn framkvæmdastjóri AFL-CIO árið 1995 og gegndi því embætti þar til hann var kjörinn forseti 2009. Í störfum sínum á vettvangi stærstu verkalýðssamtaka Bandaríkjanna beitti hann sér mjög fyrir stuðningi við baráttu launafólks um heim allan. Hann var eindreginn andstæðingur alþjóðlegra viðskiptasamninga sem skertu kjör og réttindi verkafólks og talsmaður þess að Bandaríkin endurheimtu fyrri styrk á sviði iðnframleiðslu.  

Á seinni árum lét Trumka réttindi innflytjenda í Bandaríkjunum sig miklu varða og barðist fyrir breytingum á gildandi innflytjendalögum. Í því efni sem öðrum mótaði skýr sýn Trumka framgöngu hans alla og jafnan lagði hann þunga áherslu á bætt kjör, launajafnrétti, virðingu fyrir verkafólki, örugg störf, trygga afkomu eftirlaunafólks og rétt allra verkamanna til að mynda og ganga í verkalýðsfélög og semja sameiginlega um kjör sín og réttindi.  

Alþjóðleg forystustörf 

Richard Trumka, var einnig forseti TUAC, ráðgjafarnefndar verkalýðshreyfingarinnar, gagnvart Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) sem Alþýðusambandið á aðild að. Hann tók við því embætti árið 2010 og gegndi því er hann lést.  

Drífa Snædal, forseti ASÍ, hefur sent samúðarkveðjur til bæði TUAC og AFL-CIO.  

Author

Tengdar fréttir