Bandaríska bílaframleiðandann Tesla þarf varla að kynna fyrir nokkrum manni. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í þróun rafhlaða og rafmagnsbíla og eru Tesla bílar mjög áberandi á götum flestra stórborga í dag. Ekki er deilt um ágæti bílanna og vöxtur fyrirtækisins á sl. áratug hefur verið gríðarlegur. Sé hins vegar „kíkt undir húddið“ kemur ýmislegt misjafnt í ljós sem skýrir umdeilda stöðu fyrirtækisins um heim allan.
Fyrst ber augljóslega að forstjóra og stærsta hluthafa fyrirtækisins, Elon Musk. Óhætt er að fullyrða að hann hafi verið í sviðsljósinu fyrir stjórnmálaskoðanir sínar sem því miður ganga gegn flestu sem frjáls og óháð verkalýðshreyfing í heiminum stendur fyrir. Nú þegar hann er orðinn einn nánasti samverkamaður Donalds Trump forseta Bandaríkjanna getur hann ekki flúið það að vera orðinn yfirlýstur andstæðingur félagshyggju og mannréttinda. Í því samhengi má vekja máls á því að heimssamtök verkafólks (International Trade Union Confederation – ITUC) hófu nýlega herferð af gefnu tilefni sem ber nafnið Trump-Musk módelið – árás milljarðamæringa á lýðræði (sjá: https://www.ituc-csi.org/the-trump-musk-model )
Samskipti UAW og Tesla
Frá stofnun Tesla hefur fyrirtækið undir stjórn Elon Musk haldið sig utan við hefðbundið samstarf við stéttarfélög. Þetta hefur valdið mikilli gagnrýni, sérstaklega þar sem aðrir stórir bílaframleiðendur í Bandaríkjunum (eins og Ford, General Motors og Stellantis) eru með kjarasamninga stéttarfélög og þar fer fremst í flokki UAW (United Auto Workers).
UAW hefur ítrekað reynt að skipuleggja starfsmenn Tesla, sérstaklega í Fremont-verksmiðjunni í Kaliforníu en þar hafa komið upp ásakanir um að Tesla hafi gripið til skipulagðra og ólöglegra aðferða í því skyni að brjóta niður starf stéttarfélagsins m.a. með þvingunum, hótunum og takmörkun á tjáningarfrelsi. Árið 2018 tísti Elon Musk að starfsmenn gætu gengið í stéttarfélag ef þeir vildu, en þeir myndu „missa hlutabréfaumbun“ sem þeir fengju í staðinn – þessi ummæli voru túlkuð sem ólögmæt hótun. Bandaríska vinnumálastofnunin (NLRB) úrskurðaði síðar að þessi hegðun bryti gegn vinnulöggjöfinni og var Tesla sektað. Ekkert hefur þó miðað áfram og enn þann dag í dag hefur enn ekki náðst að koma á kjarasamningi í neinum af verksmiðjum Tesla í Bandaríkjunum. Vísbendingar eru um að hnúturinn sé í raun enn að harðna og er jafnvel ástæða til að óttast að Elon Musk muni nota nálægð sína við núverandi valdhafa í Bandaríkjunum til að veikja lagalega vernd og tilvistargrundvöll bandarískrar verkalýðshreyfingar enn frekar.
Þegar Tesla keyrði á sænsku verkalýðshreyfinguna
Í október 2023 boðaði sænska verkalýðsfélagið IF Metall verkfall gegn Tesla sökum þess að fyrirtækið neitaði alfarið að undirrita kjarasamning við starfsfólk í þjónustuverkstæðum sínum. Í raun áttu litlar sem engar viðræður sér stað þar sem Tesla lýsti yfir þeirri grundvallarafstöðu sinni að fyrirtækið gerði ekki kjarasamninga. Þetta er í fyrsta sinn sem beint verkfall var beint gegn Tesla í Evrópu.
IF Metall krefst þess að starfsmenn Tesla í Svíþjóð, sem sinna viðhaldi og viðgerðum á bílum, fái sama rétt og aðrir iðnaðarmenn í landinu en Tesla lætur sér fátt um finnast. IF Metall hefur lýst því yfir að starfsfólki Tesla bjóðist um 20% lakari kjör en þau sem gilda skv. almennum kjarasamningi félagsins um sambærileg störf.
Þegar þetta er skrifað er ennþá til staðar algjör pattstaða í deilunni og engin lausn í sjónmáli. Um það bil 100 einstaklingar sem starfa hjá Tesla eru í verkfalli í því sem er orðin að lengstu vinnudeilu í Svíþjóð í 80 ár. Samhliða frumdeilunni hafa fjölmörg stéttarfélög í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Svíþjóð boðað til samúðaraðgerða til að þvinga Tesla til samninga. Má t.d. nefna;
- Póstafgreiðslufólk sem afhendir ekki skráningarplötur fyrir nýja Tesla bíla.
- Starfsfólk á fjölmörgum höfnum neita að flytja og afgreiða Tesla bíla.
- Rafiðnaðarfólk neitar því að þjónusta Tesla verkstæði og hleðslustöðvar.
- Samtök verkafólks hafa neitað því að þrífa og hirða rusl frá starfsstöðvum Tesla.
Undir öllum venjulegum kringumstæðum væri atvinnurekandi sem fær á sig viðlíka aðgerðir búinn að semja. Í því samhengi er rétt að ítreka að kröfur IF-Metall lúta eingöngu að því að Tesla undirgangist þau kjör sem samið hefur verið um hjá öðrum bílgreina og tæknistörfum í Svíþjóð. Kröfurnar lúta að því að jafna leikinn.
Viðbrögð Tesla hafa eðli málsins skv. verið gríðarlega umfangsmikil. Tesla hefur eytt hundraðfalt meira fé í að komast hjá og lágmarka áhrif verkfallsins með ýmsum hætti. IF-Metall segir Tesla hafa algjörlega virt að vettugi lagaramma sem koma á í veg fyrir verkfallsbrot og stuðla að gagnkvæmri virðingu og farsælum lausnum í vinnudeilum. Tesla virðist hins vegar líta þetta mun stærri augum. Verðmætið í því fyrir fyrirtækið að halda í þá grundvallarreglu að gera ekki kjarasamninga sé það verðmætt að kostnaðurinn og viðhöfnin sem felist í því að semja ekki við IF-Metall, sé það mikið að það réttlæti viðbrögðin. Það sem byrjaði því sem hefðbundin sænsk kjaradeila má því segja að sé orðið ein af stóru orustunum í átökum auðræðis og lýðræðis í heiminum. Óbreytt staða hlýtur á einhverjum tímapunkti að leiða til þess að deilan breiðist enn frekar út og nú beinast því allra augu að þungamiðju Evrópu, Þýskalandi.
Það kraumar í Berlín
Í útjaðri Berlínar má finna stærstu Tesla verksmiðjuna í Evrópu. Þegar verksmiðjan opnaði fyrir nokkrum árum þótti eftirsóknarvert að vinna þar, enda kaup og kjör í samhengi við það sem gengur og gerist í þýskum bíliðnaði. Undanfarin misseri hefur hins vegar aðeins kastast í kekki á milli aðila og komið í ljós að þau ágætu kjör sem buðust á sínum tíma voru algjörlega á forsendum fyrirtækisins. Á meðan ágætlega hefur gengið að hækka laun í sambærilegri starfsemi í Þýskalandi hefur meira og minna allt stíflast í verksmiðjunni í Berlín. Í mars á þessu ári skrifuðu um 3000 starfsmenn undir áskorun til Tesla þar sem þeir kröfðust betri hléa, aukins starfsfólks og bættra aðbúnaðar. Starfsmenn kvörtuðu einnig yfir því að hafa ekki nægan tíma til að fara á salernið eða fá sér drykki, og töldu sig vera beittan áreitni af hálfu stjórnenda.
Ljóst er að ef það sem kraumar í Berlín sýður upp úr, að þá er stigmögnun deilu verkalýðsfélaga við Tesla orðin algjör. Fylgst er með þróun mála í Svíþjóð og ljóst að útkoman úr deilunni þar getur haft gríðarleg áhrif á þróun mála í öðrum löndum. Baráttuþrek og þrautseigja IF Metall í Svíþjóð hefur nú þegar verið vakið eftirtekt og aðdáun út um allan heim og ljóst er að undirliggjandi er ótti hjá Tesla um að IG Metall í Þýskalandi fái nægjanlegan byr undir báða vængi til að slást við Tesla um kjör og sanngjarna meðferð.
Hvað næst?
Esther Lynch framkvæmdastjóri evrópsku heildarsamtaka verkafólks (ETUC) hefur sagt um deilu IF-Metall og Tesla:
„Það sem er í húfi í deilunni í Svíþjóð er ekkert minna en framtíð félagslega módelsins í Evrópu. Ég er stolt yfir að styðja starfsfólk Tesla sem eru að heyja mikilvæga baráttu fyrir vinnandi fólk í að tryggja mannsæmandi laun og öryggi við vinnu.
Elon Musk hefur látið sína skoðun í ljós með skýrum hætti: Hann sé mótfallinn stéttarfélögum almennt og hann er að reyna að notfæra sér nauðsynleg orkuskipti til að klekkja á stéttarfélögum.
Musk getur búið til sínar eigin reglur þegar kemst til Mars, en ef hann vill vera með starfsemi í Evrópu þá þarf hann að virða evrópskar reglur og hluti af því er að virða þær venjur og hefðir sem eru í kringum kjarasamningagerð.“
Tesla undir stjórn Elon Musk hefur í raun lýst yfir stríði við stéttarfélög og kjarasamninga og líklegt verður að telja enn frekar muni sverfa til stáls áður en yfir lætur. Það verður að teljast sorglegt í ljósi valdastöðu forstjóra fyrirtækisins. Miklum völdum fylgir mikil ábyrgð sem Elon Musk og Tesla telja að eigi ekki við um sig. Í ljósi alls sem er í gangi hjá félögum okkar sem starfa hjá Tesla í Sviþjóð, Þýskalandi og Bandaríkjunum hlýtur allt fólk sem brennur fyrir sanngjörnu og réttlátu samfélagi í anda við grunngildi verkalýðshreyfingarinnar að spyrja sig hvort að það sé réttlætanlegt að keyra um á Teslu.