Framkvæmdastjórn Norræna verkalýðssambandsins (NFS) samþykkti á vorfundi sínum í Helsinki í liðinni viku að veita Salidarnast, hinni frjálsu verkalýðshreyfingu Belarús (áður Hvíta-Rússlands), 10.000 evra styrk. Fjármunina muna Salidarnast nota til starfsemi sinnar og í því skyni að berjast fyrir frelsi félaga í hreyfingunni sem einræðisstjórn Alexanders Lúkasjenkó forseta hefur hneppt í fangelsi.
Leiðtogar stéttarfélaga og aðrir stuðningsmenn frjálsrar verkalýðshreyfingar stofnuðu Salidarnast eftir að hafa neyðst til að flýja heimaland sitt í kjölfar þess að frjáls og lýðræðisleg félög launafólks voru lýst óleyfileg í Belarús. Samtökin eru skráð í Þýskalandi og hafa höfuðstöðvar í Bremen.
Markmið Salidarnast er að komið verði á lýðræðislegu þjóðskipulagi í Belarús sem byggi á grunnreglum félagslegs réttlætis og hins frjálsa vinnumarkaðar.
Kristján Þórður Snæbjarnason, forseti Alþýðusambands Íslands, sótti fundinn í Helsinki. Á myndinni sýna fulltrúar NFS stuðning sinn við Salidarnast með táknrænum hætti.