Konur og kvár um allt land undirbúa sig nú fyrir Kvennaverkfall á morgun 24. október þegar 50 ár verða liðin frá því fyrsta 1975.
Kvennaverkfallið stendur yfir allan daginn og hafa fjölbreyttir viðburðir verið skipulagðir af aðstandendum verkfallsins frá morgni til kvölds.
Hápunktar dagsins verður söguganga kvennabaráttu og baráttufundir um allt land.
Sögugangan fer af stað frá horni Sóleyjargötu og Njarðargötu í Reykjavík frá kl. 13.30. Meðal annars stígur Sandra Barilli sem Bríet Bjarnhéðinsdóttir á stokk, hægt verður að hylla Vigdísi forseta og skrifa til hennar þakkir, heyra í kröftugum Kvennalistakonum, sjá gjörning íþróttakvenna, heimsækja baráttuheim gegn ofbeldi og horfa á spuna um þriðju vaktina svo eitthvað sé nefnt. Birna Rún Eiríksdóttir heldur uppistand um veruleika tveggja barna móður sem þarf að takast á við fæðingarorlofskerfið og leikskólamál. Göngufólki gefst kostur á að fríka út með Sísí, virða fyrir sér lengsta götulistaverk landsins sem gert var sérstaklega fyrir Kvennaverkfallið og kynnast baráttukonum og -hreyfingum í gegnum tíðina. Hér má finna kort og frekari upplýsingar um þessa sögulegu göngu.
Að göngu lokinni hefst kraftmikill baráttufundur á Arnarhóli kl. 15:00. Kynnar verða Margrét Erla Maack og Beta Skagfjörð auk þess sem Reykjavíkurdætur, Anya Shaddock og Mammaðín hrista upp í fjöldanum með tónlistaratriðum og fjöldasöng. Þá flytja Marta Ólöf Jónsdóttir og Anna Marta Marjonkowska ræður auk þess sem ungmenni horfa til framtíðar. Hér má finna dagskrána á Arnarhóli en fundurinn verður í beinni útsendingu.
Baráttufundir hafa einnig verið skipulagðir víða á landsbyggðinni. Í Hrísey og Fjallabyggð hefst baráttufundur kl. 11:00 og á Akureyri hefst baráttufundur á Ráðhústorgi kl 11:15. Í Reykjanesbæ í Aðalbókasafni bæjarins kl. 11:30 áður en haldið er til Reykjavíkur með rútum. Í Snæfellsbæ hefst baráttufundur kl. 13:30 og á Ísafirði, Höfn, Breiðamýri, Stykkishólmi, Bíldudal og Vík í Mýrdal kl. 14.00 og Patreksfirði kl. 14:45. Rútur fara frá Selfossi á Arnarhól kl 14:00. Þá eru fjöldamargir spennandi viðburðir skipulagðir um allt land frá því að fundinum lýkur á Arnarhóli fram á kvöld. Hér má finna yfirlit yfir alla helstu viðburði.