Stýrivextir lækkaðir í 1% – dökkar efnahagshorfur

Höfundur

Ritstjórn

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að stýrivextir yrðu lækkaðir um 0,75 prósentustig og eru þeir núna 1%. Með þessu bregst Seðlabankinn við dökkum horfum í efnahagsmálum en samhliða vaxtaákvörðun birti bankinn einnig rit sitt Peningamál en þar má finna fyrstu efnahagsspá bankans frá því að áhrif Covid-19 fóru að koma fram í hagkerfinu.

Áður hafði Seðlabankinn birt sviðsmyndir um möguleg áhrif Covid-19 á íslenskt efnahagslíf en í nýju spánni er talið að verg landsframleiðsla komi til með að dragast saman um 8% á þessu ári. Raungerist sú spá er það mesti samdráttur sem mælst hefur á Íslandi í heila öld. Þar vega þyngst áhrif af minni útflutningi en Seðlabankinn telur að ferðamönnum fækki um 80% milli ára. Jafnframt er talið að farsóttin valdi þjóðarbúinu langvinnum skaða þótt allnokkur efnahagsbati geti átt sér stað á árunum 2020-2021.

Einkaneysla mun dragast saman um 7,3% á þessu ári og fjármunamyndun um 6,3% samkvæmt spánni en stærstu áhrifin birtast í minni útflutningi sem dregst saman um þriðjung. Verstu áhrifin koma fram á vinnumarkaði en þar er spáð að jafnaði 9% atvinnuleysi á þessu ári en það væri mesta atvinnuleysi frá upphafi mælinga. Samkvæmt spánni er ekki útlit fyrir verðbólguskot og áætlað að verðbólga verði undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans á þessu ári.

Spá Seðlabankans er að mörgu leyti í takt við dekkri sviðsmyndir sem Hagdeild ASÍ kynnti fyrir miðstjórn í mars síðastliðnum en þá var því spáð að samdráttur á þessu ári geti numið 5-8% og atvinnuleysi orðið á bilinu 7-9%. Hins vegar er ljóst að efnahagsleg óvissa er áfram gríðarleg og erfitt að áætla hversu hraður efnahagslegur bati geti orðið á næstu árum. Sú viðspyrna er háð getu til að ná böndum á útbreiðslu Covid-19 og þar með tryggja að atvinnulíf og daglegt líf geti færst í eðlilegar skorður. Stjórnvöld verða því að tryggja afkomu og koma í veg fyrir greiðsluvanda heimila og svo að stíga kröftuglega fram í atvinnusköpun.

Tengdar fréttir

  • Alþýðusamband Íslands og Lúðrasveit verkalýðsins hafa endurnýjað samstarf sitt

    Samstarf þessara tveggja aðila á sér djúpar rætur í íslenskri…

    Ritstjórn

    3. jún 2025

  • ASÍ styrkir Samhjálp um páska

    ASÍ styrkir Samhjálp um 400 þúsund krónur nú í aðdraganda…

    Arnaldur Grétarsson

    15. apr 2025

    Kaffistofa Samhjálpar og merki Samhjálpar
  • Opið fyrir umsóknir í Minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar 2025

    Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til…

    Arnaldur Grétarsson

    8. apr 2025

    Eðvarð Sigurðsson