Þriðjudaginn 14. nóvember héldu BHM, BSRB og ASÍ sameiginlega morgunverðarfund um réttlát umskipti á vinnumarkaði. Fundurinn var haldinn í salnum VOX Club á Hótel Hilton Nordica, milli kl. 8:30-10:00. Sjá má upptöku af fundinum hér að neðan.
Ljóst er að loftslagsbreytingar koma til með að hafa víðtæk áhrif á samfélagið, efnahag, atvinnulíf og vinnumarkað. Áhrifin og afleiðingarnar eru þó óljósar og eiga mikið undir því komið hvaða stefna verður mörkuð og hvort tryggt verði að aðgerðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum séu samræmdar markmiðum um starfs- og afkomuöryggi og góð lífskjör.
Á fundinum var fjallað um hugmyndafræðina sem réttlát umskipti byggja á almennt, og sömuleiðis hvaða þýðingu þau hafa fyrir íslenskt samfélag, vinnumarkað, efnahag og velferð launafólks. Farið var yfir núverandi stefnu og aðgerðir stjórnvalda og hvað uppá vantar til að markmið um réttlát umskipti náist. Eins var farið yfir það hvernig hægt væri að innleiða réttlát umskipti í vinnu við kjarasamninga.