Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Verð á mjólkurvöru lítið breyst frá októberlokum

Í meirihluta af þeim 11 verslunum þar sem verðkönnunin fór fram í breyttist verð á mjólkurvöru lítið frá októberlokum 2023 til ársbyrjunar 2024. Í flestum verslunum voru verðbreytingar á mjólkurvöru innan við 1%, til hækkunar eða lækkunar. Mest hækkaði verð á mjólkurvöru í Iceland, eða um 4%. Verð lækkaði mest í Kjörbúðinni, eða um tæplega 5% og næst mest í Krambúðinni, 4%.
Fimm flokkar voru skoðaðir; skyr og jógúrt, rjómi, ostar og smjör, mjólk og jurtamjólk, og loks aðrar mjólkurvörur. Í síðastnefnda flokknum eru til dæmis prótein- og kaffidrykkir. Sá flokkur stóð í stað eða lækkaði í níu af ellefu verslunum og lækkaði mest í Kjörbúðinni (16%) og Krambúðinni (12%). Í Kjörbúðinni lækkaði verð í öðrum vöruflokkum um 1,1-2,6% og í Krambúðinni um 1-3,3%.

Verð á mjólkurvöru í Iceland hækkaði í fjórum flokkum af fimm, á bilinu 3,8-7%. Verð á skyri og jógúrt hækkaði mest allra flokka eða um 7%. Munaði þar mestu um gríska jógúrt með jarðarberjum frá MS, sem hækkaði um 52%. Var það einnig stærsta staka verðhækkunin sem fannst í könnuninni.

Sá flokkur sem minnst breyttist var rjómi, sem hækkaði mest í Fjarðarkaupum (5%) og Iceland (4%). Í öðrum verslunum voru hverfandi verðbreytingar í flestum flokkum og voru verðhækkanir eða lækkanir yfirleitt undir 1%.
Verðmæti varanna sem voru til skoðunar í verslununum var frá 59 þúsund krónum (10-11) upp í 327 þúsund krónur (Hagkaup). Fjöldi vara til skoðunar var á bilinu 84 í Krambúðinni til 490 í Hagkaup.

Verð lækkaði ekki á neinni af þeim 193 vörum sem skoðaðar voru í Extra. Verð hækkaði þó á einungis 11% af þeim vörum sem skoðaðar voru þar. Hins vegar hækkaði verð á 58% af þeim mjólkurvörum sem skoðaðar voru í Iceland. Verð var hækkað á fjórðungi vara í Heimkaupum, en aðeins á 3% þeirra í 10-11.

Um könnunina
Könnunin var framkvæmd annars vegar 24.-25. október 2023 og hins vegar 3.-4. janúar 2024, í verslunum og vefverslunum. Úrvalið sem hér er til skoðunar endurspeglar ekki verðbreytingar í allri versluninni. Aðeins er kannað vöruverð og ekki lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Author

Tengdar fréttir