Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,48% milli mánaða sem er minni mánaðarhækkun en fyrir ári síðan og því lækkar ársverðbólgan niður í 5,8%. Hækkun á kostnaði við eigin húsnæði vegur þyngst sem og árstíðarbundnar hækkanir á ýmsum liðum tengdum ferðaþjónustu. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar minna eða um 0,41% milli mánaða og mælist 4% á ársgrundvelli.
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,8% milli mánaða og húsaleiga hækkaði einnig um 0,8%. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 8% og liðurinn „annað vegna ökutækja“ hækkaði um 5,3% en það má rekja til verðhækkana á bílaleigubílum. Þá hækkaði verð á hótelum og veitingastöðum um 2,1% en stóran hluta af þeirri hækkun má rekja til 17% verðhækkunar á gistingu.
Hækkanir á mat- og drykkjarvöru hafa einnig nokkur áhrif til hækkunar á vísitölunni en þar vegur þyngst 0,9% hækkun á brauði og kornvöru og 1,4% hækkun á sykri, súkkulaði og sælgæti.
Liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði um 0,7% milli mánaða og föt og skór um 0,9% en það má rekja til tilboða í vöruflokkunum sem teygja sig nú yfir stærri hluta árs en áður. Þá hækkuðu húsnæðistryggingar um 3,3% milli mánaða og ábyrgðartryggingar um 2,5% en verð á bensíni og olíum lækkaði um 0,9% milli mánaða.