Hagstofan birti i gær vísitölu neysluverðs fyrir janúar og lækkaði vísitalan um 0,27% milli mánaða. Verðbólgan mælist því 4,6% og lækkar um 0,2 prósentur milli mánaða. Sé horft framhjá áhrifum húsnæðiskostnaðar lækkaði vísitalan um 0,29%. Verðbólga án húsnæðis jókst um 0,2 prósentur, úr 2,8% í 3%. Verðbólga hefur lækkað nokkuð undanfarin misseri en við gerð kjarasamninga í mars síðastliðnum mældist hún 6,8%.
Útsölur og áramótahækkanir
Áhrif af janúarútsölum sjást í janúar mælingum Hagstofunnar og lækkuðu föt og skór um 6,9% (-0,26% áhrif á vísitölu), húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. um 4,6% (-0,23%) og raftæki um 9,5% (-0,11%). Einnig lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 16,1% (-0,36%).
Í janúar taka einnig ýmsar opinberar hækkanir gildi, en þar má nefna að verð á áfengi og tóbaki hækkaði um 3,9%, þ.a. hækkaði tóbak um 8,7%. Nýr undirliður í vísitölu neysluverðs, tóbakslíki hækkaði um 32% milli mánaða og skýrist af aukinni gjaldtöku á níkótínpúða.
Raforkuverð hækkar húsnæðiskostnað
Húsnæðiskostnaður hækkaði um 0,21% milli mánaða en húsnæðiskostnaður hefur verið einn helsti drifkraftur verðbólgu undanfarin ár. Hækkunin skýrist þó ekki af beinum húsnæðiskostnaði heldur af hækkun á raforkuverði og þar með auknum rekstrarkostnaði húsnæðis. Reiknuð húsaleiga, þ.e. kostnaður við búsetu í eigin húsnæði lækkaði milli mánaða um 0,2% og greidd húsaleiga lækkaði um 0,44%. Raforkuverð hækkaði um 6,9% og þar af 12,3% á raforku til húshitunar. Er um mestu mánaðarlega hækkun á raforku að ræða frá árinu 2010. Á ársgrundvelli hefur rafmagn hækkað um 15,1%. Alþýðusambandið benti nýlega á raforkuhækkanir í grein sem birtist á Vinnunni.
Nokkur hækkun á matvöruverði
Verð á mat- og drykkjarvöru hækkaði um 0,62% milli mánaða en á ársgrundvelli hefur matvara hækkað um 4,2%. Verðhækkanir á kaffi og gosdrykkjum skýra stóran hluta af hækkuninni, en kaffi hækkaði um 3,2% milli mánaða og gosdrykkir um 3%.
Einnig hækkaði dagvöruvísitala ASÍ milli mánaða, um 0,34% og hefur hún hækkað um 3,2% milli ára. Hækkun á grænmeti og gosdrykkur vóg þungt í mælingu mánaðarins. Sé hækkun dagvöruvísitölunnar skoðuð eftir verslunum má sjá að verðlag í Bónus og Iceland hefur hækkað mest milli ára, eða um 4,8%. Verðlag í öðrum lágvöruverslunum hefur hækkað minna, 2,1% í Krónunni á meðan verðlag í Nettó hefur að jafnaði staðið í stað.
Útlit fyrir frekari hjöðnun verðbólgu
Vænta má frekari hjöðnunar verðbólgu á næstu mánuðum. Spá ASÍ gerir ráð fyrir því að verðbólga fari undir 4% í apríl og verði um 3,6% í júní. Dregið hefur úr almennum verðbólguþrýstingi og hagfelld ytri skilyrði styðja við lækkun verðbólgunnar á næstu mánuðum. Einnig hefur minni hækkunartaktur í húsnæðiskostnaði dregið úr verðbólguþrýstingi en í júní á síðasta ári voru gerðar breytingar á útreikningi á húsnæðiskostnaði eigenda, sem tekur nú mið af leiguverði en ekki reiknuðum kostnaði byggðum á eignaverði og raunvöxtum.